150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

aðgerðir í loftslagsmálum.

[15:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og boðið. Sú tala sem hv. þingmaður nefndi, 2,5% af landsframleiðslu, miðar í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna við að verið sé að verja því hlutfalli á heimsvísu til breytinga á orkukerfum í öllum heiminum. Það er náttúrlega vitað að hér á Íslandi er búið að ráðast í hluta af þessu, sérstaklega það sem lýtur hitaveituvæðingunni, og síðan líka það sem lýtur að framleiðslu rafmagns. Þannig að ég tel að það sé ekki rétt að miða við þessa 2,5% tölu fyrir Ísland en hins vegar liggur ekki fyrir hver talan ætti þá að vera. Það er flóknara reikningsdæmi en svo að því sé hægt að fleygja fram.

Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að tímasett og mælanleg markmið eru mjög mikilvæg. Við ákváðum að setja aðgerðaáætlun okkar fram, þ.e. fyrstu útgáfuna af henni, í fyrrahaust og þar eru ekki allar aðgerðir tímasettar eða með mælanlegum markmiðum. Það vissum við vel þegar við settum hana fram. Við töldum skynsamlegra að byrja, koma aðgerðunum til framkvæmda og það höfum við verið að gera, m.a. þeim sem snúa að orkuskiptum í samgöngum og kolefnisbindingu. Það eru gríðarlega mikilvæg skref sem þar hafa verið stigin. En ég tek undir það með hv. þingmanni að við þurfum að gera betur þegar kemur að því að setja mælikvarða, ekki síst á það hverju hver aðgerð eigi að skila. Að því er nú unnið í ráðuneytinu.