150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

rafvæðing hafna.

177. mál
[17:39]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja orð í belg varðandi orkuskipti og rafvæðingu í höfnum. Margt hefur þegar komið fram í máli fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra en ég velti fyrir mér: Er nægt framboð á orku til hafna? Hefur það verið kortlagt þannig að það liggi fyrir að alls staðar sé hægt að fara í orkuskiptin og rafmagn sé til staðar?

Verið er að skoða hvernig mætti styðja við eða hvetja til rafvæðingar. Er eitthvað fleira en Orkusjóður sem kæmi þar inn í? Fyrir liggur að rafvæðing getur bætt loftgæði, auðvitað sem hluti af lausninni í loftslagsmálum, en svo skiptir þetta mjög miklu fyrir vinnuaðstæður um borð í skipum þegar raftengingar frekar en dísilvélar eru í gangi. En varðandi forgangsröðun vil ég vekja sérstaka athygli á uppsjávarskipum þar sem gæti hentað vel að tengja við rafmagn og síðan að horfa til þröngra fjarða eins og Seyðisfjarðar.