150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

rafvæðing hafna.

177. mál
[17:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og öðrum þingmönnum fyrir umræðuna og fagna því að heyra að verið sé að vinna í málinu þó að gaman hefði verið að fá aðeins skýrari svör, en vonandi lýkur þeirri vinnu sem fyrst.

Hvað sem okkur finnst um skemmtiferðaskip sem ferðaþjónustugrein á Íslandi held ég að við getum verið sammála um að æ fleiri vísbendingar séu um að við þurfum að móta okkur stefnu varðandi móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið hratt síðustu tíu árin. Einn af þeim lærdómum sem draga má af þeim öra vexti er að heppilegra sé að móta sér stefnu sem fyrst og taka ákvarðanir um hvernig á að byggja upp greinina í stað þess að óljós umgjörð sé og að enginn horfi á stóru myndina. Ég tel að enn sé tækifæri til að móta stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi og hafa áhrif á uppbyggingu greinarinnar. Mikilvægt er að einhver taki af skarið og ég tel eðlilegt að þessi miðstýrða vinna sé unnin af ríkinu og að sjálfsögðu í samstarfi við sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila.

Ég mun á næstu dögum leggja fram þingsályktunartillögu um að fela hæstv. ráðherra að mótuð verði slík stefna. Ég vona svo sannarlega að ég fái stuðning við þá tillögu, bæði frá ráðherra og þinginu.