150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[17:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Eins og margir vita, m.a. hæstv. fjármálaráðherra, hefur Miðflokkurinn lagt fram líklega sl. tvö ár mjög gaumgæfilegar tillögur sem lúta að því að efla tollgæslu í landinu. Þetta hafa verið nokkuð ígrundaðar og nákvæmar tillögur, t.d. um að endurnýja röntgenbifreið tollstjórans sem er komin mjög til ára sinna og er til vansa að hún skuli ekki hafa verið endurnýjuð en það kostar gríðarlega mikla fjármuni að gera það.

Við höfum líka lagt til að fjölgað sé í þeirri tollgæslu á landamærum og undirbyggt það með mjög góðum rökum. Við vöktum einnig athygli á því að nauðsynlegt væri að embætti þáverandi ríkisskattstjóra og tollstjóra fengju aukna fjármuni, þ.e. auknar fjárheimildir, til að bæta enn innheimtu og til að efla skattinnheimtu yfir höfuð. Í nýfengnu svari til þess sem hér stendur frá hæstv. fjármálaráðherra, sem tók ansi langan tíma að lemja saman, kemur í ljós að áætluð skattsvik á hverju ári eru u.þ.b. 80 milljarðar kr. Við vorum áðan að ræða þjóðarsjóð sem átti að verða til af 10 milljörðum á ári inn í framtíðina. Við erum að tala um 80 milljarða í skattsvik. Við höfum líka í sjálfu sér getað, og dæmin sanna það, sýnt fram á hvar þau skattsvik liggja að ýmsu leyti. Það hefði verið hægt að negla nokkuð niður hvaða starfsemi það er sem er sérstaklega útsett fyrir skattsvikum.

Þá ætla ég að minna á að hæstv. ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra hefur rekið sérstakt átak í því að skrá gistieiningar í landinu sem kenndar eru við Airbnb, en fyrir sex árum voru innan við 10% þeirra skráðar. Þetta er öryggisatriði fyrir þá sem gista. Þetta er líka fjárhagslegt atriði fyrir bæði sveitarfélög og ríkissjóð. Í nýlegu svari við fyrirspurn undirritaðs til hæstv. ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra kom í ljós að átakið sem hæstv. ráðherra hafði í gegn hefur haft í för með sér að um þessar mundir er um þriðjungur skráður af slíkum eignum. Lagt var á það mat hvað mætti ætla að skattsvik væru stór upphæð í þeim geira einum. Menn komust að því að það gætu verið um 6–6,5 milljarðar á ári og við vorum að ræða áðan þjóðarsjóð sem á að verða til með því að leggja 10 milljarða á hverju ári. Nú er mér bannað að vitna í Inspector Clouseau þó að ég hefði viljað gera það en þetta eru engir smámunir, svo að ég reyni að yfirsetja það á íslensku sem hann sagði hér um árið. Þetta eru engir smámunir heldur stórfé og þess vegna ríður mjög á að þetta sameinaða embætti, sem á að koma á laggirnar eftir 70 daga, fái, eins og ég sagði áðan, þann heimanmund að það ráði vel við verkefni sín og fari af stað eins og maður segir, ekki á annarri löppinni heldur með krafti, að það séu allir sem þurfa að taka þátt í þessu ævintýri, í því breytingaferli. Það er mikið ævintýri að taka þátt í að breyta stofnunum og maður hefur svo sem reynslu af því. Þá ríður mjög á því að allir séu á sömu blaðsíðunni og menn séu alveg með það á hreinu hvert takmarkið er og vinni allir að sama takmarki og sömu niðurstöðu.

Þess vegna veldur það mér áhyggjum, herra forseti, að t.d. í stéttarfélagi tollvarða, sem kemur til með að bera hita og þunga af tollgæslu á landamærum hér eftir sem hingað til, sé megn óánægja með frumvarpið eins og það lítur út, að þar sé megn óánægja með það samráðsleysi sem hefur greinilega verið viðhaft við samningu þessa frumvarps og undirbúning málsins alls. Þeirri óvissu og óánægju verður að eyða með einhverjum hætti. Það verður að eyða henni á þann hátt, tel ég, að menn séu fullvissir um hvaða hlutverk þeir hafi áfram í nýju embætti og standi föstum fótum við þau verkefni sem þeir eiga að vinna.

Það er annað sem ég get bent á. Mér sýnist í greinargerðinni ýjað að því að tollgæsla á landamærum eigi e.t.v. meira sameiginlegt með löggæslu en innheimtu. Þá hlýt ég að spyrja: Ef þetta er einhver upptaktur að því að breyta tollgæslunni, sem er í eðli sínu löggæslustétt, með því að sameina hana lögreglu á einhvern hátt hefði ég talið æskilegra að menn hefðu tekið sér lengri tíma í breytingarnar til þess að við værum ekki að gera þær í mörgum köflum. Í fyrsta lagi núna með því að sameina þessi tvö starfssvið, þessi tvö embætti og með það í huga að þurfa jafnvel eftir tiltölulega skamman tíma að breyta aftur og breyta þá tollgæsluendanum í þá átt að hann tengist lögreglu með einhverjum hætti.

Að því sögðu, af því að í andsvari ráðherra áðan var nefndur til sögunnar sá ágæti embættismaður sem væntanlega kemur til með að stýra þessari nýju sameiginlegu stofnun, ætla ég bara að segja það úr þessum ræðustól að ég ber fyllsta traust til núverandi ríkisskattstjóra sem var áður tollstjóri. Ég treysti honum gríðarlega vel til að leysa þetta verkefni vel, svo að það sé sagt hér. Það er engin tortryggni í mínum huga í garð einstakra persóna við þessa breytingu, en samt þarf að tryggja að breytingin, sem er veruleg, fari þannig fram að af henni verði gagn.

Ég ætla líka að minnast á hunda, vegna þess að ég hef talað um tækjabúnað og mannafla í tollgæslu og þær tillögur sem Miðflokkurinn hefur lagt fram í tvö ár um það. Við höfum lagt til undanfarin tvö ár að hundasveit tollgæslu verði efld að mun. Ef þetta væri ekki grafalvarlegt mál væri jafnvel hægt að hafa það í flimtingum að tollgæslan sé nú að þjálfa hunda til að leita að peningum, af því að tollgæslan hefur verið fjársvelt í mörg herrans ár. Málið er bara miklu alvarlegra en svo að hægt sé að gera það. Þess vegna brýni ég hæstv. ráðherra til þess að þegar ný stofnun tekur til starfa um áramót verði hún þannig í stakk búin, hvað varðar t.d. leit með hundum, að ástandið verði stórum betra en það hefur verið undanfarin ár. Sá endi starfseminnar, þ.e. hin fýsíska ef ég má sletta, herra forseti, tollgæsla á landamærum og leit og greiningarvinna o.s.frv., hefur verið unninn undanfarin ár, ég fullyrði tíu jafnvel 15 ár, af of fáum. Hún hefur verið undirmönnuð. Tækjabúnaður hefur ekki verið endurnýjaður sem skyldi. Þetta hefur leitt til þess að borið hefur á langtímaveikindum í hópi þess fólks sem ber hita og þunga af þeirri starfsemi við þær mjög erfiðu aðstæður. Borið hefur á kulnun. Ég veit að þetta ágæta starfsfólk er mjög brennandi í andanum fyrir því að vinna störf sín vel og af árvekni, enda sést árangurinn af því sem menn hafa verið að gera við þessar aðstæður. Árangurinn er ótvíræður.

Eins og ég benti á áðan er ljóst að Ísland er núna skotmark fyrir alþjóðlega glæpastarfsemi sem snýst um að smygla fíkniefnum. Það er alveg ljóst vegna þess að við sjáum tilvik sem verða ekki skýrð með öðrum hætti en þeim að menn séu í stórsókn inn á þennan markað hér. Á því verður að taka. Ef við gerum það ekki missum við tökin algerlega með hörmulegum afleiðingum og við erum þegar farin að sjá fram á hörmulegar afleiðingar. Við erum farin að sjá fram á það að fyrsta fíkn stórs hluta ungmenna sem kemur til meðferðar á Vogi, hvar biðlistarnir eru náttúrlega allt of langir eins og víða annars staðar, virðist að stóru leyti vera kókaínfíkn.

Þetta er náttúrlega gríðarlega alvarlegt mál og því segi ég enn: Ef þessi sameinaða nýja stofnun á að fara af stað með jákvæðum, öruggum og markvissum hætti verða menn að hafa það í huga, ekki síst núna í fjárlagagerðinni. Það er alveg klárt mál að í 2. umr. fjárlaga munu koma fram tillögur, enn einu sinni, frá Miðflokknum, um að bæta í. Líkt og áður mun flokkurinn leggja fram fjármagnaðar tillögur. Ég minntist áðan á tvær upphæðir sem snerta þá sameiginlegu stofnun verulega. Það eru í fyrsta lagi þeir 80 milljarðar sem starfsmenn hæstv. fjármálaráðherra telja að skotið sé undan á Íslandi á hverju einasta ári. Ég sagði áðan að þessi starfsemi hefði verið fjársvelt í tíu ár og það hafa þá lekið niður 800 milljarðar á þeim tíma ef þessi áætlun manna er nokkuð nákvæm. Þó að við næðum ekki nema 10% af því eru það 8 milljarðar kr. á ári eða 80 milljarðar yfir þau tíu ár sem við erum að tala um og að auki, eins og ég minntist á, skattsvik, undanskot sem hægt er að heimfæra upp á ákveðnar atvinnugreinar. Ég er ekki að lasta þær eða tala þær niður á neinn hátt heldur byggi ég þetta á svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni. Þar erum við í einni tegund af starfsemi að tala um 6–6,5 milljarða sem stungið er undan. Þá segi ég aftur: Þó að við næðum ekki nema 10% af þeirri upphæð eru það 600–650 millj. kr. á ári.

Að því leyti til gleðst ég yfir því að þessi starfsemi, þ.e. skatturinn, fái aukið afl, aukinn slagkraft, aukna möguleika til að bæta innheimtu ríkissjóðs og til að efla hér skattinnheimtu yfir höfuð og koma í veg fyrir undanskot sem mest má. Ég gleðst mjög yfir því en vona sannarlega að þegar þingið tekur þetta frumvarp til afgreiðslu verði haft ríkara samráð við þá starfsmenn eða þá hópa starfsmanna sem eiga að bera byrðarnar eftir áramótin og eiga að bera þennan kyndil inn í framtíðina.