150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[18:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt en þó ympra á ýmsu. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum. Í örstuttu máli sagt er þessum lögum ætlað að leggja niður embætti tollstjóra og tekur embætti ríkisskattstjóra yfir réttindi þess og skyldur. Þannig verða starfsmenn tollstjórans, ef breytingin verður samþykkt, starfsmenn ríkisskattstjóra eftir 1. janúar nk.

Tilefni lagasetningarinnar er sagt vera í samræmi við stjórnarsáttmálann, þetta sé nauðsynlegt til að við séum betur í stakk búin til að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í örum tæknibreytingum. Síðan segir um þær tæknibreytingar, með leyfi forseta, í greinargerðinni:

„Þeim munu fylgja nýjar kröfur um menntun og hæfni starfsfólks og að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum, þ.m.t. hjá hinu opinbera. Meðal þeirra áskorana sem starfsemi ríkisins þarf að bregðast við eru auknar kröfur almennings og atvinnulífs um sjálfsafgreiðslu og stafræna opinbera þjónustu. Hraðar breytingar krefjast þannig sveigjanlegra stofnanakerfis og fjölbreytts hóps starfsmanna sem þurfa að búa yfir nýrri þekkingu og hæfni.“

Þegar maður les þetta mætti halda að allt hafi hreinlega verið í kaldakoli hjá embætti tollstjóra. Með þessum orðum er verið að segja að þau þurfi að fylgja tækninni og vera í stakk búin o.s.frv., það séu hraðar breytingar á ferðinni og þess vegna þurfi að sameina þessi embætti. Þetta gefur manni þá hugmynd að allt hafi verið á fallanda fæti. Liður í því er sagður vera að efla og stækka rekstrareiningar ríkissjóðs og gera þær öflugri. Ég get skrifað undir það. Rætt er um að auka þurfi gæði þjónustunnar og afköst í skattframkvæmd, auk hagkvæmni í rekstri. Það er vel skiljanlegt. Undanfari þessa frumvarps var, herra forseti, flutningur innheimtu opinberra gjalda frá tollstjóra til ríkisskattstjóra á miðju þessu ári, auk þess sem ekki hefur verið skipað í embætti tollstjóra frá því í október fyrir réttu ári síðan. Þetta er undanfari þessa frumvarps, þ.e. flutningur innheimtu opinberra gjalda frá tollstjóra til ríkisskattstjóra. Hér með er sem sagt lagt til að gengið verði alla leið og nú skuli einnig tollafgreiðslan og tollgæslan, sem hingað til hafa verið á höndum tollstjóra, færðar í hendur ríkisskattstjóra en stofnun sú er hann stýrir mun eftir breytinguna verða nefnd því frumlega nafni Skatturinn, eins og fram kemur í 90. gr. frumvarpsins, en þar segir að ríkisskattstjóri stýri stofnun „sem nefnist Skatturinn sem annast þau verkefni sem honum er falið að sinna lögum samkvæmt.“ Markmið með breytingunum er sagt vera að auka skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Já, auðvitað.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að gera megi ráð fyrir því að mikil samlegðaráhrif og hagræði hljótist af fullri sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra sem komi helst fram í rekstri og ýmsu er viðkemur tölvunotkun. Ég er alls ekki á móti hagræðingu í ríkisrekstri, alls ekki, og andmæli því seint að ríkinu beri að hagræða. Þess vegna er ég ekki í grunninn á móti sameiningu ríkisstofnana og fækkun þeirra, alls ekki. Ég hef einungis nokkrar athugasemdir sem ég vona að verði skoðaðar í nefndinni sem tekur þetta mál til umfjöllunar.

Ég hef nokkra reynslu af slíkum störfum, bæði innheimtu opinberra gjalda sem innheimtumaður ríkissjóðs og einnig tollgæslustörfum sem tollstjóri um nokkurra ára skeið. Ég velti fyrir mér ýmsu, t.d. hvort hér séu að öllu leyti samrýmanleg hlutverk innan þessarar nýju stofnunar og starfsemi hennar, hvort það hafi sérstaklega verið athugað. Ég átta mig á því að það er engin nýlunda þó að innheimta opinberra gjalda fari undir skattinn. Það var gert með lögum í fyrra. Innheimtan sem var á hendi tollstjóra var færð undir skattyfirvöld. En nú er verið að ganga lengra. Það er verið að færa tollgæsluna og tolleftirlit einnig undir skattinn. Þá veltir maður fyrir sér: Er þetta samrýmanlegt? Ég skal ekki segja en ég óska eftir því að nefndin skoði þetta með tilliti til þess að það eru ekki mörg ár síðan að svokallaðir sýslumenn voru einnig með lögreglustjórn og tollstjórn og innheimtu opinberra gjalda. Allt þetta. Það þótti ómögulegt. Þetta mátti alls ekki vera og var tínt af þeim smám saman.

En núna er sem sagt verið að færa þetta yfir til skattyfirvalda, þ.e. það sem áður var á hendi sama manns og var með lögreglustjórn á sinni könnu er núna komið í hendur skattstjóra, ríkisskattstjóra í þessu tilviki, og er búið að færast ansi langan veg. Ég velti fyrir mér: Er þetta að fullu samrýmanlegt? Geta komið upp tilvik þar sem þetta skarast og er ekki tilhlýðilegt? Við verðum að átta okkur á því að ríkisskattstjóri ákvarðar álagningu skatta. Hann leggur á skatta og hefur ákveðið úrskurðarvald, eins langt og það nær í lögunum. Hann er líka kominn með yfirumsjón með tollgæslu og tolleftirliti. Ég bendi á að tollverðir, undir hverjum sem þeir nú eru eftir breytingu þessa frumvarps, eru með lögregluvald. Þeir eru með lögregluvald samkvæmt lögreglulögum á sínu starfssviði. Þannig að þarna er skattstjóri, ríkisskattstjóri í þessu tilviki, kominn með starfsmenn sem eru með lögregluvald. Ég velti fyrir mér hvort það sé hlutverk starfsmanna sem undir ríkisskattstjóra munu heyra eftir breytinguna, hvort þetta hafi verið skoðað sérstaklega, hvort þarna séu hugsanlega árekstrar sem gætu komið upp með tilliti til núverandi hlutverks ríkisskattstjóra, innheimtunnar, álagningarinnar, tollgæsluhlutverksins, lögregluvalds sem tollvörðum er falið. Ég óska eftir því að nefndin íhugi þetta og kalli til sín fróða menn á því sviði þannig að hægt sé að greina þetta niður í kjölinn, svo að við séum ekki að feta leið sem svo síðar kemur í ljós að gengur illa upp. Reynslan af sýslumannsembættunum þar sem sýslumenn höfðu mörg hólf í skúffum sínum þótti ekki par góð. Nú er þetta sem sagt að færast í aðra átt, í hendur ríkisskattstjóra.

Þetta er fyrsta athugasemd mín. Þetta eru að mörgu leyti eðlisólík embætti, þ.e. tollstjórn og starfsemi ríkisskattstjóra. Ég vil einnig taka undir það með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að ég tel mjög mikilvægt varðandi þetta mál að hugað verði vandlega að því hlutverki tollsins sem er tollgæsla á landamærum landsins og að það verði ekki sett til hliðar heldur eflt ef þetta frumvarp verður að lögum, að niðurstaðan verði ekki að það verði sett til hliðar. Það er mjög mikilvægt. Hlutverki tollvarða og tollsins á landamærum landsins má alls ekki draga úr. Tollgæslan hefur mátt þola bæði mannfæð og slæman aðbúnað að öðru leyti varðandi tæki og tól, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hefur oft bent á í ræðustól. Þessi breyting, ef hún verður að lögum, má alls ekki verða til þess að það verði áfram farin sú leið heldur frekar að starfsemi tollgæslu á landamærum verði efld.

Ég vil benda á tvö, þrjú atriði í viðbót. Fyrst varðandi þá umræðu sem hefur verið hér í dag og þá miklu andstöðu sem er hjá Tollvarðafélaginu eða stétt tollvarða sem hafa harðlega mótmælt þessum breytingum og kvarta yfir því að áhrif af frumvarpinu séu ekki nægilega greind. Ég hef bent á nokkur atriði sem þarf að skoða. Breytingarnar eiga að taka gildi 1. janúar nk., eftir tvo og hálfan mánuð. Ég tel þetta vera frekar skamman tíma og sérstaklega fyrst það er í andstöðu við stóra stétt sem kæmi til með að færast undir allt annað embætti en áður. Auðvitað er ekki gott að fara í svona breytingar með það á bakinu að ekki hafi verið haft nægilegt samráð við viðkomandi stéttir. Það er mikilvægt að slíkar breytingar séu gerðar í eins mikilli sátt og mögulegt er við þær starfsstéttir sem um ræðir, eins og allar breytingar eiga að sjálfsögðu að vera.

Ég vil að lokum, herra forseti, benda á þær breytingar sem hafa orðið síðustu ár og endurtaka að tollgæslan, innheimtan — það er auðvitað ekkert skrýtið þó að hæstv. fjármálaráðherra komi hingað upp í pontu og lýsi því yfir að þetta hafi gengið afskaplega vel, þ.e. sú breyting að færa innheimtu opinberra gjalda. Ég er alls ekki að andmæla því að innheimta þeirra gjalda geti vel átt heima undir ríkisskattstjóra, alls ekki. Ég er að tala um annað. Ég er að tala um tollstjórnina og benda á að nú er búið að færa þetta alla leið frá gömlu sýslumönnunum á 10 eða 12 árum, færa tollstjórnina, tollverðina, alla leið frá gömlu sýslumönnunum yfir til ríkisskattstjóra. Stóra spurningin í mínum huga er: Samræmist það? Er þetta eitthvað sem getur valdið árekstrum í starfsemi þessarar nýju stofnunar? Þarna er á sömu hendi vald og ég spyr: Er þetta vald samrýmanlegt að öllu leyti?