150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[12:40]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra brást aðeins við ræðu minni áðan og er ánægjulegt að heyra að hann meti störf fiskifræðinga mikils, líka þegar kemur að því að greiða þeim fyrir vinnu sína, að það séu engin áhöld um það. (Gripið fram í: … góðir menn.) Það er ekki alltaf úti í samfélaginu þannig að menn nálgist málin þannig.

Það markmið að draga úr kostnaði við arðskrármat er göfugt. Ég er ekki viss um að það skili sér endilega í þessu frumvarpi. Ég held að það að færa umsýslu frá ráðuneytinu spari ekki neina fjármuni, a.m.k. ekki fyrir fólkið sem á hlut að máli. Það er gott að fá meiri fagmennsku inn en ágreiningi er skotið áfram. Kostnaður við arðskrármatið er farinn að sliga mörg smærri veiðifélög sem eru kannski með 2 milljónir í tekjur á ári og eru jafnvel að glata tekjum í eitt, tvö eða þrjú ár út af arðskrármati, kæru og öðru slíku. Það er mjög mikilvægt að finna einhverjar leiðir fyrir þessi veiðifélög svo að þau geti starfað og notið einhvers af verðmætum sínum þó að ekki sé sátt um nákvæma skiptingu þeirra. Þetta skiptir minna máli fyrir stærri veiðifélög sem eru með meira undir og meiri tekjur. Ég legg áherslu á að fundnar verði leiðir til að spara enn frekar kostnað við arðskrármöt en um leið að halda fagmennskunni og gæðunum. Ég ítreka aftur þetta atriði um að gæta þess að ekki séu hagsmunaárekstrar varðandi matið og rannsóknir og að menn sitji öllum megin við borðið. Það er bara ekki gott.