150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

lífeyrissjóðir og fjárfestingar.

[15:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra kynnti í ræðu sinni á Norðurlandaráðsþingi að þörf væri á að breyta skattlagningu þannig að hún þjónaði markmiðum loftslagsmála og það þyrfti að tryggja að lífeyrissjóðir og sjóðir hins opinbera fjárfestu í grænum skuldabréfum. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvaða skattahækkunum megum við eiga von á til að ná þessum markmiðum um tengingu skattkerfisins við loftslagsmál, umfram það sem þegar er orðið? Og með hvaða hætti hyggst hæstv. forsætisráðherra hlutast til um það að lífeyrissjóðir fjárfesti á þann hátt sem hæstv. ráðherra ætlast til og kaupi þessi svokölluðu grænu skuldabréf?

Gefist hæstv. forsætisráðherra tími til að fara út í þá sálma væri líka áhugavert að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þess hvað geti talist græn skuldabréf. Fátt hefur skilað eins miklum árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á undanförnum árum eins og stóraukin notkun Bandaríkjamanna á jarðgasi á kostnað kola. Það má því velta fyrir sér hvort skuldabréf í jarðgasframleiðslufyrirtækjum í Bandaríkjunum teldust ekki vera græn skuldabréf. En fyrst og fremst spyr ég, herra forseti: Með hvaða hætti ætlar hæstv. forsætisráðherra að hlutast til um fjárfestingar lífeyrissjóðanna og hvaða skattahækkanir eru í vændum vegna þessara grænu viðbótaráherslna?