150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

aðgerðir í loftslagsmálum.

[15:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýlega var vitnað í hæstv. umhverfisráðherra að segja að alltaf sé hægt að hlusta betur en það sé svo spurningin um að heyra og gera betur. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra um aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem er enn þá í fyrstu útgáfu, án kostnaðarmats aðgerða, án árangursmats aðgerða og án tengingar við skuldbindingar. Ég tel þetta vera alvarlegt því að nú stendur til að afgreiða fjárlög þar sem fjármagn er veitt til þessara aðgerða án þess að við höfum hugmynd um hvort forgangsröðun stjórnvalda skili okkur þeim árangri sem þarf bæði umhverfisins vegna og vegna skuldbindinga.

Spurningin er því einföld: Hvernig erum við að gera betur með því að hrúga peningum í aðgerðaáætlun stjórnvalda án þess að hafa hugmynd um hvaða árangri það kemur til með að skila okkur? Hvernig er það að heyra og gera betur að giska á fjárheimildir í þessi mál? Af hverju erum við ekki enn þá með það á hreinu hvað skuldbindingar koma til með að kosta okkur ef ekki er gripið til aðgerða? Heyrir ráðherra ekki efasemdaraddirnar og afneitunina sem gengur manna á milli í samfélaginu og jafnvel inni á þingi? Skilur ráðherra ekki að skortur á upplýsingum um t.d. kostnað vegna skuldbindinga gefur slíkum röddum byr undir báða vængi, að falsfréttir nærast á slíkum skorti?

Virðulegi forseti. Við erum að glíma við gríðarlega stórt vandamál á heimsvísu og miðað við bestu útreikninga sem vísindin geta gefið okkur. Þetta er vandamál sem snertir allar þjóðir heims og hvert er svar Íslands? Hlusta betur. Hitaveita frá því á síðustu öld. Ef hæstv. ráðherra er að hlusta betur hvernig er þá verið að gera betur með því að giska á fjárheimildir og áhrif þeirra?