150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

aðgerðir í loftslagsmálum.

[15:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Við höfum áður á þessum vettvangi rætt aðgerðaáætlunina sem kom fram í fyrrahaust og að þar skorti útreikninga á því hverju sumar af þeim aðgerðum sem þar eru settar fram eigi að skila og hver kostnaðurinn sé við þær. Þetta höfum við hv. þingmaður rætt oft í þessum sal og hv. þingmanni er jafnframt kunnugt um að verið er að vinna að því að bæta úr þessu, enda alveg ljóst að þegar við settum áætlunina fram í fyrrahaust vissum við af þeim vanköntum sem hafa verið til umræðu. Við stefnum að því að gefa hana út í kringum áramótin og þá munum við fá að sjá betur hverju má ná fram með hvaða aðgerðum.

Ég vil síðan segja almennt að ég tel að það hafi verið skynsamlegt að ráðast strax í aðgerðir frekar en að bíða lengur. Við höfum stóraukið fjárframlög núna til innviðauppbyggingar þegar kemur að uppbyggingu innviða fyrir umhverfisvænni bifreiðar, sérstaklega rafbíla, bæði hvað varðar ívilnanir til að kaupa slíkar bifreiðar en líka til að styrkja innviðina til að hægt sé að hlaða úti um allt land og sérstaklega m.a. við gististaði. Við höfum einnig ráðist í umfangsmikið átak þegar kemur að landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis sem á sér líka stoð í því að takast á við áskoranir sem felast í því að náttúrunni hefur hnignað mjög mikið í heiminum. Við höfum komið á frekari grænum sköttum og erum með frumvörp í þinginu hvað það varðar, bæði urðunarskatt og skatt á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir. Við höfum auk þess, svo ég noti síðustu fjórar sekúndurnar, sett stóraukið fjármagn í rannsóknir sem munu skila okkur meiri árangri á næstu árum.