150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[15:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Á undanförnum misserum hefur sífellt aukin umræða verið um stöðu innflytjenda hér á landi og sér í lagi kerfisbundna misnotkun á innflytjendum á vinnumarkaði þar sem brotið er á réttindum þeirra að því er virðist af hreinum ásetningi, þó kannski af fámennum hópi fyrirtækja en á mjög alvarlegan hátt. Það er auðvitað ljóst að við hefðum ekki farið í gegnum það hagvaxtarskeið sem við erum að fara út úr án þátttöku innflytjenda. Innflytjendum hefur fjölgað um 25.000 hér á undanförnum áratug og framlag þeirra til samfélagsins er alveg ómetanlegt á því tímabili. Í Þjóðarspegli sem Háskóli Íslands stóð fyrir í síðustu viku var farið yfir málefni innflytjenda og sérstaklega stöðu þeirra á vinnumarkaði. Þar var fulltrúi ráðherra ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins í pallborði og ummæli hans voru ansi sláandi. Meðal annars kom fram að hann teldi ekki ástæðu til þess að fræða innflytjendur frekar um réttindi sín á vinnumarkaði. Það væri á ábyrgð hvers og eins að afla sér upplýsinga þar að lútandi. Hann teldi ekki ástæðu til að styrkja sérstaklega íslenskukennslu því að innflytjendur nenntu ekki að læra tungumálið og hann tók sérstaklega fram hvað það væri gott að auðvelt væri að losna við fólk á íslenskum vinnumarkaði í því samhengi. (Gripið fram í: Smart.)

Þetta gengur auðvitað þvert á gildandi framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á Alþingi fyrir þremur árum síðan. Það er nærtækt að spyrja hæstv. ráðherra, því að ég ætla að ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, ráðuneytis vinnumarkaðar og málefna innflytjenda hafi ekki verið að lýsa persónulegum skoðunum sínum: Er þetta stefna ráðherra, stefna stjórnvalda í málefnum innflytjenda?