150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[15:47]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari við hv. þingmann hefur þessi ríkisstjórn þvert á móti gert ýmislegt mjög jákvætt þegar kemur að málefnum innflytjenda. Ég rakti það áðan. Við höfum verið að auka þjónustu, við höfum lagt meira í þennan málaflokk og það er vel. Við höfum m.a. lagt sérstaka áherslu á það í gegnum Vinnumálastofnun að þjónusta (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Það er mjög erfitt að svara spurningum þegar það eru svona frammíköll. Við höfum lagt áherslu á að þjónusta (Gripið fram í.) þennan hóp sérstaklega.

Varðandi ummæli ráðuneytisstjóra í panel á umræddu málþingi segi ég eins og er að það er algjörlega óbreytt stefna hjá núverandi ríkisstjórn, sem verið hefur frá fyrsta degi, að gera betur við þennan málaflokk. Ég er ekki í stakk búinn, þar sem ég var ekki á staðnum og hef ekki séð neinar upptökur af þessu eða útprentanir, til að svara fyrir ummæli þegar hv. þingmaður túlkar pistil hjá manneskju sem var þar. (Gripið fram í.) Ég óska eftir því að hv. þingmaður bendi á eitthvað í aðgerðum (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórnar þar sem við höfum skert eða dregið úr þjónustu. Við höfum ekki gert það, þvert á móti, og við munum halda áfram á þeirri braut þrátt fyrir frammíköll hv. þingmanna Viðreisnar í salnum.