150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:14]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir mikilvæga umræðu og hæstv. ráðherra fyrir sitt innlegg. Forvarnir eru til alls fyrst, fræðsla og upplýsingar. Því er mikilvægt að leggja áherslu á grunninn og þá skiptir máli samstarf ríkis og sveitarfélaga í geðheilbrigðismálum. Sveitarfélögin hafa bæði með leik- og grunnskóla að gera. Grunnur að góðri geðheilsu er lagður í gegnum skóla, frístundir og íþróttir. Snemmtæk íhlutun og heildstæð úrræði skipta máli um leið og erfiðleikanna verður vart. Heilsuefling í skólum þarf að fara fram með heildrænum hætti en hún byggir undir alla þætti í framtíðarheimi einstaklingsins. Einstaklingur í nútímasamfélagi byrjar sinn þroska með foreldrum sínum og svo dvelur hann stóran hluta af mótunartíma sínum í skóla. Ef fer að bera á veikleika á geðheilbrigði skiptir máli að grípa inn í með snemmtækri íhlutun sem felur í sér að börn fái aðstoð og hjálp sem fyrst áður en vandamálið ágerist með skaðlegum og óafturkræfum afleiðingum. Skimun fyrir áhættuþáttum hjá börnum, svo sem kvíða, þunglyndi og/eða áhrifum áfalla meðal barna er þáttur í forvörnum. Þannig er hægt að veita viðeigandi stuðning og fræðslu ef viðkomandi einstaklingur telst í áhættuhópi. Forsendur snemmtækrar íhlutunar eru að stofnanir samfélagsins sem koma að málefnum barna leggi sig fram við að samræma meðhöndlun og tryggja þverfaglega nálgun og samræmi allt sem þær bera ábyrgð á gagnvart börnum.

En það er ekki allt unnið í gegnum skólann heldur þarf að hlúa að fjölskyldunni, styðja foreldra með uppeldishlutverk sem hefur góð áhrif á samfélagið allt. Okkur er svo gjarnt að setja undir okkur hausinn og æða áfram. Þjóðfélag í mildari takti skapar betri núvitund og rými fyrir athygli okkar hvert á öðru. Leið til þess er til að mynda að stefna að lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði sem núverandi stjórnvöld stefna að og sveigjanlegri vinnutíma. Það færir okkur nær fjölskylduvænu samfélagi.