150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:25]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Tíðni ungbarnadauða á Íslandi er sú lægsta í Evrópu og sennilega í heiminum. Við erum stolt af því að mæðravernd er í öruggum höndum og að ungbarnaeftirlit sé með því allra besta sem þekkist. Á fyrstu árum barna í leikskóla er sérstaklega vel fylgst með þroska og líðan barna sem þar stíga sín fyrstu skref í skólagöngu. En svo virðist eitthvað gerast á árunum í kjölfarið hjá allt of mörgum, ekki öllum samt. Við missum einhvern veginn einbeitinguna, þráðurinn trosnar, einmitt þegar mest á ríður, á mótunarskeiði í lífi ungmenna þegar mikið er að gerast og áreitið óskaplegt. Öll kerfin sem við höfum búið til kikna undan erfiðustu málunum, félagslega þjónustan, heilbrigðiskerfið, skólakerfið og síðast en ekki síst, mikilvægasta grunnkerfið, fjölskyldan.

Sumarið 2016 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára og rennur hún sitt skeið eftir hálft ár. Þar er margt á góðri leið en í ljósi ástandsins þarf meira til, virkari aðgerðir, sérstaklega þegar um ungt fólk er að ræða. Hver kannast ekki við stöðugar og raunalegar fregnir fjölmiðla um sorgleg afdrif unglinga? Við þekkjum þau jafnvel mörg á eigin skinni.

Samanburðartölur frá öðrum löndum hrópa á skýringar. Hvað veldur? Hvað veldur því að íslenskar stúlkur á aldrinum 15–24 ára taka ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnöldrur þeirra í Danmörku? Hvað veldur því að sjálfsmorðstíðni drengja á aldrinum 10–19 ára er hvergi hærri á Norðurlöndum en á Íslandi? Hvað veldur því að enginn hópur tekur eins mikið af ADHD-lyfjum og íslenskir drengir á aldrinum 10–14 ára?

Er þetta í lagi, herra forseti? Ég segi nei. Við þurfum skýringar. Við eigum að draga þær fram í dagsljósið, ræða þær kinnroðalaust og fjalla um þær opinskátt. Við eigum að vinna með þessi málefni og grafast fyrir um skýringarnar — því að þær eru til. (Forseti hringir.) Við eigum að bregðast við, það má engan tíma missa því að líf liggja við.