150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka mikið vel fyrir þessa mikilvægu umræðu sem við þurfum sífellt að taka hér og heldur okkur á tánum. Mig langar að byrja á að spyrja: Hvað vill unga fólkið? Hvað vill unga fólkið í þessum vanda? Það er kannski ekki endilega að kalla á meiri pening, það er að kalla á úrræði sem það getur gripið til til að fá hjálp í þeim vanda sem það tekst á við, úrræði sem ekki leiða til þess að þurfa að vera á löngum biðlistum, úrræði sem gerir fólkið ekki að stofnanamat, úrræði sem ekki eru endalausar ávísanir á lyf.

Fólk vill fá opin úrræði sem eru aðgengileg og að því sé mætt á sínum stað og á sínum grundvelli án þess að gera það að einhverri kennitölu í kerfinu. Þess vegna þurfum við ekki endilega alltaf að kalla á meiri peninga, heldur skulum við bara ræða hvernig við nýtum þá peninga sem við höfum í dag. Ég held að við þurfum svolítið að snúa kerfinu við. Ef við skoðum þetta fer meiri hluti peninganna sem við setjum í þessi mál í að reka stofnanir og stofnanaúrræði og borga lyf og lyf og aftur lyf í staðinn fyrir að hjálpa grasrótinni sem er með lausnirnar, er með úrræðin, en sú grasrót fær ekki að blómstra. Hún fær ekki tækifæri til að blómstra með þessum opnu úrræðum. Þau eru til mörg. Þar er grasrótarstarf og það er á jafningjagrundvelli sem það er rekið, þar sem fólk kemur inn og finnur sín úrræði. Að sjálfsögðu eru lyf og stofnanir mikilvægar. Við þurfum bara að taka þetta í réttri röð, eins og við tölum um í heilbrigðisstefnunni, fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu. Forvarnirnar eru í opnu úrræðunum og í fyrsta stiginu. Svo kemur annað stigið og svo þriðja stig þar sem lyfin og stofnanirnar koma vissulega til. Við eigum því að sameinast um að styrkja þetta allt saman og sjá til þess að unga fólkið, þeir sem þurfa á þjónustunni að halda, fái þessi úrræði.