150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og vil þakka ráðherra sérstaklega fyrir það sem hún færir hér fram. Fram kom í máli hennar að búið er að setja fjármuni og meira afl í þessi mál en áður var og það ber að virða. Það er hins vegar ekki nóg. Ég er bæði sammála og ósammála hæstv. ráðherra þegar hún segir að einfaldar lausnir séu ekki til. Ég held að ef við setjum hug okkar allra saman getum við fundið einfaldar lausnir. Það er næsta víst að í þessu afmarkaða máli, sem við ræðum hér, erum við annars vegar að ræða bráðavanda og hins vegar forvarnir. Við erum að ræða hvernig hægt er að halda utan um þann hóp sem ratar þessa götu þannig að fólk geti öðlast fyllra og betra líf.

Hvað varðar bráðavandann getum við t.d. tekið á honum eftir átta daga, þá fer fram 2. umr. fjárlaga og við getum þá lagt meira fé til þessa málaflokks. Það er auðvelt. Það er ein af einföldu lausnunum. Ef við viljum það öll getum við gert það til að byrja með. Við verðum hins vegar, og ég ítreka það, að takast á við þann vanda sem við vitum að er til og taka á þeim brotalömum sem við vitum að eru til, t.d. í meðferð unglinga og ungs fólks á meðferðarstofnunum. Við þurfum að taka á því. Við þurfum bara að opna augun og mér finnst þessi umræða hafa verið hreinskilin og hreinskiptin að því leyti til að við þurfum að horfast í augu við þetta vandamál. Við þurfum að ræða það opinskátt og fyrir alla muni skulum við bretta upp ermar (Forseti hringir.) og taka til óspilltra málanna. Við getum byrjað á því við 2. umr. fjárlaga með því að leggja myndarlega til þessa málaflokks og síðan skulum við halda áfram.