150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar.

315. mál
[17:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar. Íslenska ríkið er aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni sem á ensku nefnist International Labour Organization og er jafnan notast við skammstöfun stofnunarinnar, ILO, þegar talað er um hana. Frumvarp þetta er lagt fram til að mæta kröfum 188. samþykktar stofnunarinnar um vinnu við fiskveiðar.

Samþykkt þessari er ætlað að stuðla að mannsæmandi vinnuskilyrðum skipverja á fiskiskipum, m.a. þannig að þeir njóti aukins öryggis og heilbrigðis við vinnu, læknishjálpar á sjó og í landi, að skipverjar fái næga hvíld og njóti fullnægjandi verndar ráðningarsamninga og almannatryggingaverndar til jafns við aðrar vinnandi stéttir. Aðildarríki stofnunarinnar komu sér saman um samþykktina í júní árið 2007 og tók hún gildi 16. nóvember 2017.

Íslenska ríkið hefur ekki fullgilt samþykktina en markmiðið er að Ísland verði tilbúið til þess eftir þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til. Íslensk lög og reglur uppfylla nú þegar kröfur samþykktarinnar að mestu. Þó er þörf á tilteknum breytingum til að hún teljist að fullu innleidd, annars vegar þeim sem hér eru lagðar til og hins vegar með reglugerðarsetningu. Breytingar þessar munu innleiða reglur samþykktarinnar með fullnægjandi hætti án þess þó að gengið sé lengra en þar er kveðið á um.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á tvennum lögum, annars vegar sjómannalögum og hins vegar lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

Breytingin sem lögð er til á sjómannalögum varðar næturvinnu ungmenna. Í 9. gr. samþykktar ILO er kveðið á um lágmarksaldur fiskimanna. Meðal þess sem kveðið er á um er að næturvinna fiskimanna yngri en 18 ára sé óheimil. Skuli nótt vara í minnst níu klukkustundir. Þetta tímabil skal ekki hefjast síðar en á miðnætti og ljúka ekki fyrr en kl. 5 að morgni. Í sjómannalögum er ekki kveðið á um næturvinnu sjómanna á fiskiskipum en í 3. mgr. 8. gr. laganna segir að ekki megi hafa yngri mann en 18 ára við vinnu á farþega- og flutningaskipum að nóttu til. Sú regla var lögfest í fyrra, við innleiðingu á annarri samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem varðaði vinnuskilyrði farmanna. Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á þessu ákvæði þannig að það eigi við um skip almennt, þar með talin fiskiskip.

Síðan eru gerðar tillögur að þremur viðbótum við lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, í fyrsta lagi að skilgreiningu á fiskimanni verði bætt við 3. gr. laganna, það sé einstaklingur sem stundar hvers konar vinnu um borð í fiskiskipi, þar með talinn sá sem fær greiddan hlut í veiði. Hafnsögumenn, löggæsluaðilar, aðrir aðilar í fastri vinnu ríkis, starfsmenn í landi sem sinna störfum um borð í fiskiskipum eða eftirlitsmenn með fiskveiðum teljast ekki vera fiskimenn.

Í öðru lagi er lagt til að sett verði nýtt ákvæði um skráningar- og ráðningarþjónustu fiskimanna. Í lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa er að finna ákvæði sem varðar starfsemi þessara fyrirtækja. Var það sett til innleiðingar á samþykktinni um vinnuskilyrði farmanna. Í dag eru ekki starfræktar ráðningarstofur af þessu tagi hér á landi.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sambærilegu ákvæði verði bætt við í lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Þar verði kveðið á um að þessi fyrirtæki skuli starfa í samræmi við viðurkennd gæðastjórnunarkerfi að fengnu leyfi frá Samgöngustofu, að þjónustan sé skilvirk, fullnægjandi, áreiðanleg, skipverjum að kostnaðarlausu og til þess fallin að fiskimenn geti fengið starf. Samgöngustofa mun hafa eftirlit með því að kröfur til þessara fyrirtækja séu uppfylltar. Þá er lagt til að ráðherra verði heimilt að mæla nánar fyrir um skráningar- og ráðningarþjónustu skipverja á fiskiskipum og eftirlit með henni í reglugerð.

Loks er lagt til að við lögin bætist ný grein um heilbrigðiskröfur til fiskimanna. Í samþykkt ILO um vinnuskilyrði fiskimanna er kveðið á um heilbrigðisskoðanir og gerð krafa um vottorð til staðfestingar á fullnægjandi heilbrigði fiskimanna til að sinna skyldustörfum sínum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að útgerðarmaður og skipstjóri fiskiskipa beri ábyrgð á því að allir fiskimenn leggi fram vottorð um að þeir uppfylli kröfur um heilsuskilyrði. Kveðið er á um gildistíma heilbrigðisvottorðs í samræmi við kröfur samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO. Vottorð sem heimilar fiskimanni að starfa á fiskiskipi, sem er 24 metrar að lengd eða lengra eða er að jafnaði á sjó í þrjá daga eða lengur, skal vera að hámarki tvö ár en ef skipverji er undir 18 ára aldri skal gildistíminn þó vera eitt ár. Gildistími heilbrigðisvottorðs sem heimilar vél- og skipstjórnarmönnum að starfa á fiskiskipi, sem er styttra en 24 metrar og er að jafnaði á sjó í minna en þrjá daga, skal vera að hámarki fimm ár. Aðrir skipverjar á skipum undir 24 metrum að lengd þurfa ekki að framvísa heilbrigðisvottorði. Lagt er til að ráðherra verði skylt að mæla nánar fyrir um kröfur um heilbrigði fiskimanna.

Síðan er lagt til, verði frumvarp þetta að lögum, að það taki gildi 1. júlí 2021. Lagabreytingar þær sem lagðar eru til munu þarfnast undirbúnings hjá Samgöngustofu og hagsmunaaðilum. Samgöngustofa þarf að uppfæra verklag innan stofnunarinnar og kynna breytingar að því er varðar útgerðir, skipstjóra og skipverja. Þá munu hagsmunaaðilar þurfa tíma til að afla heilbrigðisvottorða.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.