150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í gær var kynnt skýrsla atvinnulífsins um áherslur í menntamálum til framtíðar. Í þeirri skýrslu er ýmislegt áhugavert að finna og margt sem þarf að skoða betur. Í málefnum grunnskóla var farið yfir auknar áherslur á lestur, stærðfræði, skapandi greinar og vísindi, styttingu grunnskólans um eitt ár og ýmislegt fleira, á háskólastiginu að endurskoða fjármögnunarlíkan, taka upp fjöldatakmarkanir að norrænni fyrirmynd, sameina háskóla og taka upp norrænt námsstyrkjakerfi. Einnig eru lagðar til aðgerðir á leikskólastigi, í framhaldsskóla og í framhaldsfræðslu.

Ég get verið sammála þeim markmiðum skýrslunnar að þörf er á ýmsum endurbótum í menntakerfinu og það ber að taka þessar tillögur alvarlega og með opnum hug. Þó eru atriði í skýrslunni sem ætti að staldra við og spyrja atvinnulífið hvern það telur tilgang menntakerfisins vera. Hér á ég ekki við stórar breytingar eins og styttingu grunnskólans eða fjöldatakmarkanir í háskóla heldur, með leyfi forseta, „bilið á milli þess sem íslenskt menntakerfi skilar og þess sem íslenskt atvinnulíf þarfnast er að aukast. Sú niðurstaða bendir til þess að skoða þurfi innihald náms og með hvaða hætti einstaklingar velja sér nám.“

Í því samhengi þarf að hafa akademískt frelsi til viðmiðunar en það er skilgreint sem frelsi háskólakennara, háskólanemenda og háskólanna sjálfra til að leita þekkingar, hvert svo sem leitin leiðir, án óeðlilegra afskipta. Menntun er nefnilega ekki fyrir atvinnulífið. Menntun er miklu viðameira og mikilvægara fyrirbæri. Menntun er grunnstoð nútímasamfélags, ekki út af atvinnuskapandi möguleikum menntunar heldur út af því afli sem vísindalega aðferðin er. Atvinnulífið getur nýtt afurðir menntakerfisins en það á ekki að stýrast af þörfum atvinnulífsins. Það grefur undan akademísku frelsi sem er ein helsta ástæða þess að nútímasamfélag er ekki lengur í viðjum geðþóttaákvarðana harðstjóra heldur byggt á lýðræðislegum grunni og gildum. Verjum akademískt frelsi.