150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

umræður um málefni samtímans.

[14:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er komin hingað upp til að ræða einmitt fundarstjórn forseta af því að það er farið að bera svolítið mikið á því, herra forseti, að forseti finni sig knúinn til þess að standa upp og setja ofan í við þingmenn sem nýta málfrelsi sitt úr pontu Alþingis þegar forseta finnst umræðan eitthvað óþægileg. Maður hefur ítrekað fundið fyrir því á undanförnum mánuðum og það er sérstaklega hvimleitt að þegar ákveðnir þingmenn, sérstaklega í stjórnarandstöðu, leyfa sér að tjá sig og skoðanir sínar er komið og sett ofan í við þingmenn. Ég verð að mótmæla þessu af því að þingmenn allir, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu, eiga að hafa hér fullt tjáningarfrelsi. Það er réttur þingmanna að fá að tjá sig án þess að forseti Alþingis setji ofan í við þingmenn að ræðum loknum.