150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

innheimta opinberra skatta og gjalda.

314. mál
[14:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann kallar eftir því að þannig sé búið um hnútana að einhver sanngirni sé í samskiptum milli ríkis og skattgreiðenda almennt og að það eigi að birtast okkur í því að ríkið áskilji sér ekki með lögum rétt til þess að taka vexti og eftir atvikum dráttarvexti af álögðum kröfum en að ef einstaklingar eigi inneign hjá ríkinu sé það vaxtalaust. Ég skil mjög vel þessa grunnhugsun og vil alls ekki gera neitt annað en að hvetja efnahags- og viðskiptanefnd til að skoða jafnvægið þarna á milli.

Ég verð samt sem áður að benda á að þegar um er að ræða álagða skatta og gjöld skiptir gríðarlega miklu máli að það kosti ekki lítið að taka lán hjá ríkinu, að menn geti ekki skotið sér undan því að greiða skatta og gjöld og gengið út frá því að þeir fái vaxtalágt lán til næstu mánaða eða jafnvel ára. Það er kannski í því samhengi sem dráttarvaxtakrafan er sett inn í lög. Hún á að verka sem mikill hvati til að standa samstundis í skilum og að það gangi jafnt yfir alla.

Auðvitað má taka spegilmyndina af þessu og spyrja sig hvort ríkið þurfi þá ekki líka að hafa hvata til að leggja á rétta skatta og önnur gjöld og þegar ljóst er orðið að eitthvað hafi verið oftekið kosti það ríkið að skila því ekki samstundis til baka. Hér er farin sú leið að segja að allt sem gerist innan 30 daga frests sé eðlilegur afgreiðslutími en (Forseti hringir.) það má alveg hafa skoðanir á því.