150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í gær áttu sér stað umræður, undir liðnum um fundarstjórn forseta, um möguleika stjórnarandstöðunnar, þeirra sem hafa áhuga á fréttum af framkomu við þungaða konu sem vísað var úr landi þvert á faglegar ráðleggingar, á því að ræða það. Fram kom í máli hæstv. forseta að hann teldi í sjálfu sér að ekki skorti upp á úrræði og tækifæri innan ramma þingskapa til að taka upp brýn mál. Á þessum fundi, gott ef ekki á meðan hæstv. forseti lét þessi orð falla, sendi ég póst á formenn þingflokka með ósk um að kannað yrði hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sæi sér fært að sitja í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag til að ræða þau mál sem varða hennar málefni og þessa uppákomu.

Skemmst er frá því að segja að hæstv. heilbrigðisráðherra situr ekki hér. En það sem er eiginlega verra er að ég fékk engin svör við þessari beiðni. Ég ætla því að vefengja orð hæstv. forseta um að ekki skorti úrræði og tækifæri innan ramma þingskapa. Ég hef ekki hugmynd um hvort yfir höfuð var leitað eftir því að hæstv. ráðherra kæmi hingað til að taka þátt í umræðu um þessi mál þannig að ég vísa því á bug að við höfum öll þau tækifæri sem við þurfum til að ræða við ráðherra þegar upp koma brýn pólitísk mál sem þarf að ræða í núinu en ekki fara eftir einhverri stífri og fyrir fram skipaðri dagskrá.