150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

brottvísun barnshafandi konu.

[15:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Matið þarf að vera einstaklingsbundið og vegna þess máls sem hv. þingmaður vísar hér til og hefur verið í umfjöllun var það líka einstaklingsbundið mat. Þar komu upp aðstæður sem við ætlum að láta skoða og landlæknir og Útlendingastofnun ætla að setjast saman yfir hvort það sé eitthvað sem við þurfum að breyta eða skýra hvar við getum gert betur. Þannig þurfum við að nálgast málefni útlendinga. Við náum engum árangri með þennan málaflokk ef umræðan er pólaríseruð eða tekin upp aðeins þegar einstök mál koma í fjölmiðla.

Við erum hér með gríðarlega stóran málaflokk og fjölda mála þar undir, við veitum fjölmörgum vernd og viljum forgangsraða í þágu þeirra þannig að auðvitað koma upp einstök mál sem sýna þannig á spilin að einhvers staðar þurfum við að gera betur. Þannig eigum við að vinna í þeirri þingmannanefnd sem ég hef reynt að skipa, og er enn að bíða eftir tilnefningu í frá nokkrum flokkum, til að fara yfir hvar við getum enn gert betur af því að þau lög sem við erum að framfylgja eru niðurstaða af þverpólitískri vinnu.

Ég held að það sé hægt að snúa þessu máli á margan hátt. Dómsmálaráðuneytið fer ekki með einstök mál, þau koma ekki inn á borð ráðherra eins og áður var þegar dómsmálaráðuneytið var með réttu kærustjórnvald. Þá komu líka aðeins um 35 umsóknir um alþjóðlega vernd. Ég fagna því að einstök mál lúti ekki geðþóttaákvörðunum stjórnmálanna. Ég held að í öllum málum þurfi að fara fram einstakt mat og það á að vera í höndum lækna og heilbrigðisstarfsfólks (Forseti hringir.) hverju sinni til að leggja mat á meðgöngu og hvort kona, sem oft treystir sér sjálf til þess, fari í flug á þessum tíma.