150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem fólk montar sig af í þessu samkomulagi er að það sé verið að fara í þessar framkvæmdir á 15 árum í staðinn fyrir 50. Afsakið, en það er einmitt metnaðarleysi að hafa ætlað að klára þetta á 50 árum til að byrja með. Það er ekkert til að monta sig af að fara í framkvæmdir sem borga sig upp sjálfar, bara út frá umferðaröryggi. Við skulum hætta með þann montstatus, takk.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um eitt í viðbót: Hvert flyst höfnin ef gerð verður lágbrú yfir Elliðavog?

Að lokum langar mig til að fjalla aðeins um enn aðra samgönguáætlun, ekki bara samgönguáætlanir landshlutanna, sem ég tel að séu mjög góð viðbót þó að það sé ekki endilega fjallað sérstaklega um hverja og eina á þinginu, það kemur svo sem bara í heildarsamgönguáætlunni. Mér finnst vanta samgönguáætlun fyrir annars konar ferðamáta; hjólreiðar, gangandi og einmitt almenningssamgöngur. Ég held að svigrúm þeirra á næstu árum komi til með að stækka miklu meira en gert er ráð fyrir í þessu samkomulagi og þeirri samgönguáætlun sem við höfum fyrir framan okkur. Ég tel að sá hluti samgönguáætlunar sé vanmetinn mjög mikið miðað við þá tækniþróun sem við sjáum og ákveðnar vinsældir ýmissa annarra ferðamáta. Ég kalla einfaldlega eftir því að góður hluti af endurskoðaðri (Forseti hringir.) samgönguáætlun fjalli um möguleika annars konar ferðamáta en einungis einkabílsins í því máli.