150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[16:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir skjót viðbrögð við beiðni um þessa sérstöku umræðu. Í gærmorgun bárust fréttir af því að kona sem var komin nærri 36 vikur á leið var sett í flugvél í skjóli nætur gegn ráðleggingum fagfólks frá mæðravernd Landspítalans ásamt manni sínum og tveggja ára barni.

Heilbrigð skynsemi segir að hún hafi ekki átt að fljúga. Það þarf varla vottorð lækna til að átta sig á því. Engu að síður var hún send í 19 klukkutíma ferðalag og þrjár flugferðir. Nú er komið í ljós að ekkert lá á að senda konuna úr landi. Settur forstjóri Útlendingastofnunar sagði í Kastljóssviðtali í gær að það hefði ekki skipt neinu máli hvort hún hefði fætt barnið hér eða ekki fyrir stöðu hennar sem hælisleitanda. Hvers vegna allt þetta offors? Landlæknisembættið telur málið alvarlegt og hefur sagt, með leyfi forseta:

„Það liggur í hlutarins eðli að þarna er kona sem gengin er langt á leið. Hún er í áhættuhópi og í mjög viðkvæmri stöðu, bæði líkamlega og félagslega, en þann þátt þarf líka að hafa í huga. Ég veit að sérfræðingarnir niðri á spítala höfðu þetta í huga og að þeir koma með sínar ráðleggingar, sem svo ekki er fylgt.“

Vissulega er heimild í okkar gölluðu útlendingalögum til að senda hana úr landi en það er alveg jafn ljóst að þar er líka heimild til að gera það ekki. Ég veit að hæstv. ráðherra á bágt með að tjá sig um einstök mál sem undir hana heyra en um verklagið, stefnuna og gildin sem ráða í þessum málum getur hún rætt. Þótt mál þungaðrar konu sé tilefni þessarar umræðu er mál hennar bara enn ein birtingarmynd ómannúðlegrar meðferðar innflytjenda. Börn sem hafa búið hér stóran hluta ævinnar eða alla sína ævi eru rifin úr skólum og leikskólum og send til lands sem þau hafa tengsl við en þekkja ekki. Fólki sem hefur dvalið hér og tekið virkan þátt í samfélaginu er vísað á brott.

Herra forseti. Hér er því spurt hvernig haldið sé á málaflokknum í heild sinni, um stefnuna og gildin. Flokkur hæstv. ráðherra hefur haldið á þessum málum um langt skeið. Reglur eru mannanna verk. Ef þær leiða til ómannúðlegrar niðurstöðu eiga menn a.m.k. að hafa þann manndóm í sér að segja: Breytum reglunum.

Í tíð fyrrverandi dómsmálaráðherra voru lög og reglugerðir hert og af þeirri braut hefur ekki verið horfið. Er það ætlan nýlega skipaðs hæstv. ráðherra að breyta útlendingalögunum í átt til meiri mannúðar en ekki bara skilvirks kerfis sem gleymir stundum að þar að baki eru manneskjur?

Herra forseti. „Þegar UNICEF og Rauði krossinn biðja okkur að hlusta er ástæða til að hlusta, hlusta og velta því fyrir sér hvort við séum að framfylgja lögum sem eiga að byggjast á mannúð með þeim hætti sem við eigum að gera …“

Þetta er tilvitnun í hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, í þinginu þann 27. september árið 2017 í umræðum um útlendingalög.

Í yfirlýsingu Rauða krossins í dag segir m.a.:

„Samkvæmt 2. gr. laga um útlendinga er markmið laganna m.a. að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga. Meðferð á fjölskyldunni var að mati Rauða krossins ekki í samræmi við markmið laganna um mannúð …“ (Forseti hringir.)

Ég hlýt að spyrja: Hvar er mennskan í þessu kerfi okkar? Hvað hyggjast stjórnvöld eiginlega fyrir?