150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[16:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir að vekja máls á þessum málaflokki. Ég vil jafnframt fullvissa þá sem hér sitja um að það er einlæg ósk mín að fram fari málefnaleg umræða í þinginu um þennan viðkvæma málaflokk. Það er mikilvægt að umræðan sé yfirveguð, almenn og málefnaleg. Það er hins vegar staðreynd að oft eru það einstaklingsmál sem rata í fjölmiðla sem verða kveikjan að almennri umræðu eins og hv. þingmaður vísaði til. Þó að ég geti ekki rætt það mál efnislega sem liggur fyrir opinberlega frekar en önnur einstök mál er ég mannleg eins og aðrir og málið kemur að sjálfsögðu við mig eins og aðra.

Málefni útlendinga og umsækjenda um alþjóðlega vernd hafa verið í brennidepli um ansi langt skeið. Þegar horft er til þróunar á útlendingaregluverkinu síðustu tíu ár sést glögglega að rík viðleitni hefur verið til að bæta umgjörðina á regluverkinu og framkvæmdinni á margan hátt og mörg framfaraskref verið stigin í þágu málaflokksins, enda allt önnur staða í dag en bara fyrir tíu árum. Eðli þessa málaflokks er hins vegar þannig að hann kallar á reglulega endurskoðun af því að viðfangsefnið er fólk og líf þess. Þá er bæði sanngjarnt og eðlilegt að við spyrjum okkur reglulega hvað megi betur fara. Erum við að gera nógu vel eða er eitthvað sem þarf að gera með öðrum hætti? Er kerfið þannig uppbyggt að það þjóni þeim sem það á að þjóna? Erum við að gera rétt?

Núgildandi útlendingalög voru unnin með aðkomu þverpólitískrar þingmannanefndar af þeirri ástæðu einmitt að málaflokkurinn er viðkvæmur. Markmið þeirra laga er að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Ég verð hins vegar að leyfa mér að setja spurningarmerki við það að þingmenn rjúki upp til handa og fóta og keppist um að fordæma kerfið í heild sinni, kerfi sem þingmenn bjuggu til saman, í hvert sinn sem upp kemur mál þar sem er hægt að gera betur. Ég er hrædd um að við náum litlum árangri til að gera betur þegar kemur að þessum málaflokki ef umræðan verður svona. Af því að hv. þingmaður nefnir það sérstaklega haldast að mínu mati í hendur mannúðarsjónarmið og góð og skilvirk meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Það er mannúð að þurfa ekki að bíða lengi í óvissu og fá engin svör. Ég vil jafnframt árétta að árlega veitir kerfið okkar talsverðum fjölda umsækjenda alþjóðlega vernd hér á landi og þeim fer fjölgandi.

Þegar fólk kemur hingað til lands og sækir um alþjóðlega vernd fer það inn í ákveðið ferli í kerfi sem þingheimur hefur samþykkt. Í upphafi eru allir á núllpunkti, allar umsóknir skoðaðar og það er mannúð að á öllum umsóknum er gert einstaklingsbundið mat. Ef niðurstaðan er að augljóst sé að einstaklingur eigi rétt á vernd fer málið t.d. í forgangsmeðferð sem og ef það er ljóst að vernd verði ekki veitt. Slík forgangsmeðferð tekur í dag 4–11 daga, til hagsbóta fyrir alla aðila, og þá er stuttur tími í óvissu. Reynslan sýnir að þau sem fá vernd eftir svona stutta málsmeðferð koma einnig hraðar undir sig fótunum í íslensku samfélagi. Af þeim sem ekki fá vernd eru það t.d. mál frá öruggum upprunaríkjum, svo sem Bandaríkjunum, Japan og Albaníu, sem koma í kerfið og fá oftast neitun, þó að öll mál séu tekin fyrir einstaklingsbundið, löndum þar sem grundvallarmannréttindi eru virt.

Heiti umræðunnar snýr að innflytjendum sem heyra undir félagsmálaráðherra en kannski erum við að ræða aðallega hæliskerfið og verndarkerfið okkar og þá má auðvitað velta fyrir sér hvort það sé líka rétt að beina sjónum að atvinnuleyfum og þeim skilyrðum. Það er önnur umræða sem er samt svo nátengd þessari og verður auðvitað að taka líka.

Verklagsreglurnar í dag byggja á útlendingalögum þar sem kveðið er á um brottvísun af hendi stoðdeildar ríkislögreglustjóra þegar framkvæmdarhæf ákvörðun liggur fyrir. Á því eru undantekningar, eins og hv. þingmaður nefnir, þar sem er hægt að fá frestun á slíkri brottvísun um ákveðinn tíma af heilsufarsástæðum. Þá er aflað vottorðs læknis um hvort viðkomandi sé ferðafær og ef það liggur fyrir að flutningur stefnir öryggi hans í hættu er honum frestað. Fyrir því eru fjölmörg dæmi, bæði í tilviki barnshafandi kvenna og einstaklinga sem glíma við veikindi. Heilbrigðisvottorðið þarf að kveða skýrt á um að viðkomandi sé ekki ferðafær og ég vísa til þeirra viðtala sem settur forstjóri Útlendingastofnunar hefur veitt um það einstaka mál og matið sem þar lá fyrir en fagna því að landlæknir og (Forseti hringir.) Útlendingastofnun setjist yfir þessa framkvæmd af því að einstaklingurinn verður að geta átt persónulegt samtal við lækni án þess að aðrir fái upplýsingar um það samtal og að upplýsingar verði ekki veittar úr sjúkraskrám.

Ég held að þingmenn geti verið sammála um að þessi málaflokkur er stór. Við þurfum að tryggja markmið laganna um mannúð og skilvirkni og ég vonast til að eiga gott samtal við þingheim.