150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

361. mál
[19:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Hér er annað stórt frumvarp, en þetta er öllu kunnuglegra. Það er gaman að sjá annan liðinn í innleiðingu BRRD koma fyrir og ég þakka kærlega fyrir það. Mig langar samt að spyrja um nokkur efnisatriði. Eitt varðar hreinlega þetta skilavald. Hér er verið að búa til enn eina sjálfstæða einingu innan Seðlabankans sem nýbúið er að sameina Fjármálaeftirlitinu. Gæti þetta fyrirkomulag orðið til þess að mynda einhvers konar venju, að til yrði fullt af sjálfstæðum einingum innan Seðlabankans, eða á að setja stopp hér? Maður getur ímyndað sér að þetta gæti farið úr böndunum eftir því sem fleiri regluverk gera kröfu um fleiri þætti sem kínamúra þarf á milli.

Ég velti líka fyrir mér hvenær skilavaldinu sé ætlað að útbúa áætlanir fyrir fyrirtæki, hvort það sé standandi áætlun fyrir hvert fyrirtæki af ákveðinni stærð og þá byggt á einhverjum sviðsmyndum og mati á eigin fé, eignum og skuldum, eða hvort þetta komi upp þegar það er annaðhvort metið svo að fyrirtækið sé illa statt eða sé komið yfir einhver tiltekin mörk. Í því samhengi spyr ég hvort ekki sé mikilvægt að einhvers konar leynd ríki yfir því að áætlanir séu í bígerð vegna þeirra áhrifa sem það hefði á markaðsstöðu fyrirtækisins ef það fréttist út að það væri í einhvers konar meðferð hjá skilavaldinu.