150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég og hv. þingmaður erum alveg sammála um að óvissa verður alltaf til staðar í hagkerfi. Hagkerfið er bara mannlífið, það er lifandi. Vissulega erum við að byggja á áætlun, og ég kom inn á það í ræðu minni. Maður veltir því fyrir sér, þegar við erum einmitt í þessu fjárlagaferli, og mér finnst þetta góðar vangaveltur hjá hv. þingmanni, hversu nákvæm við eigum að vera í því að taka tillit til hagspáa með jafn skömmu millibili þegar við erum að horfa inn í árið. Við mætum hér aftur í janúar og fljótlega eftir það hefst vinna við ríkisfjármálaáætlun. Þá þurfum við að horfa inn í þetta. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að óvissa er víða í hagkerfum heimsins og hún hefur áhrif á stöðu okkar. Við þurfum að spá og spekúlera í þeirri óvissu sem teiknast upp. En það sem ég var að reyna að segja í fyrra andsvari og ítreka aftur er að við höfum byggt (Forseti hringir.) meiri sveigjanleika inn í ríkisfjármálastefnuna sem ég tel rétt til að mæta bætur óvissunni og láta áætlanir standa.