150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (frh.):

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið ruglingslegt. Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja en er að hugsa um að snúa mér að vanda hjúkrunarheimilanna. Ég held að ég sé að detta inn á staðinn þar sem frá var horfið áður en við fórum í þetta stutta hlé og byrja að tala um að löng bið sé og hafi verið eftir vistun á hjúkrunarheimili. Heilbrigðisráðherra hefur ráðist í aðgerðir til að freista þess að vinna bug á vandanum. Aðgerðirnar felast í fjölgun hjúkrunarrýma sem hefur þó haft ófyrirséðar afleiðingar. Ekki var einungis um það að ræða að byggja ný hjúkrunarrými heldur var einnig gripið til þess úrræðis að endurskilgreina dvalarrými sem hjúkrunarrými. Þannig hefur dvalarrýmum fækkað verulega á undanförnum árum. Þá eru auk þess fjölmörg rými auð á dvalar- og hjúkrunarheimilum landsins sem má rekja til nokkurra þátta. Það kostar álíka mikið að reka eitt hjúkrunarrými og að reka tvö dvalarrými. Þegar tvö dvalarrými eru endurskilgreind sem hjúkrunarrými er því aðeins hægt að veita viðeigandi þjónustu fyrir einn heimilismann, enda er ekki til fjármagn til að veita þjónustu í hinu rýminu. Þá hafa kröfur til þjónustu hjúkrunarheimila aukist undanfarin ár. Einnig eru íbúar hjúkrunarheimila mun veikari nú en fyrir t.d. tíu árum. Ástæðuna má m.a. rekja til þess að bið eftir innlögn er lengri nú en áður. Fólk er því orðið veikara þegar það kemst inn á hjúkrunarheimili. Fjárframlög hafa ekki hækkað til samræmis við það sem kalla má aukna hjúkrunarþyngd. Því duga fjárveitingar ekki fyrir þeirri þjónustu sem krafist er.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, hér eftir SFV, benda á það í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið að daggjöld ríkisins til reksturs hjúkrunarrýma á vegum Landspítalans, t.d. á Vífilsstöðum, hafi árið 2019 numið 50.000 kr. Það hafi þó ekki dugað fyrir rekstri heimilisins, en daggjöld til hjúkrunarheimila á grundvelli rammasamnings við Sjúkratryggingar Íslands á árinu 2019 voru einungis 35.000 kr. Hver heilvita maður sér að þegar kostnaðurinn við einstaklinginn er áætlaður 50.000 kr. en síðan fást í gegnum samninga við Sjúkratryggingar 35.000 kr. munar 15.000 kr. á dag fyrir hvern einstakling. Framlög ríkisins til hjúkrunarheimila eru því talsvert lægri en sú fjárhæð sem ríkið telur að þurfi til að standa undir sambærilegri þjónustu á eigin vegum.

Þá gerir ríkisstjórnin kröfu um aðhald í rekstri hjúkrunarheimila. SFV benda á að vegna aðhaldskröfu fjárlaga muni ríkið að endingu greiða 1,3 milljörðum kr. lægri fjárhæð til reksturs hjúkrunarheimila og dagdvalar á tímabilinu 2018–2020. Þá eiga hjúkrunarheimili erfitt með að manna starfsemi sína og starfsfólk leitar í önnur störf þar sem betur er borgað. Hver þekkir ekki söguna af elliheimilinu Grund? Ung kona sem vinnur fulla vinnu fær útborgað 230.000–240.000 kr. á mánuði. Hún er einstæð móðir með litla telpu. Hún leigir 40 m² holu á 150.000 kr. á mánuði og það sér hver heilvita maður að það er algjörlega ómögulegt fyrir þessa ungu konu að veita barninu sínu nokkurn skapaðan hlut. Svona einstaklingar skrimta frá degi til dags.

Vandi hjúkrunarheimilanna er margþættur og SFV hafa ítrekað gagnrýnt þá stefnu ríkisstjórnarinnar að ráðast í uppbyggingu nýrra hjúkrunarheimila í stað þess að tryggja betur rekstrargrundvöll þeirra sem þegar eru fyrir í landinu. 4. minni hluti tekur undir þá gagnrýni. Það er óráðsía að ætla að laga vandann með fjölgun hjúkrunarrýma ef fjármagn er ekki til staðar til að reka þau, samanber að við horfðum á glæsihjúkrunarrýmin sem voru opnuð af góðum hug, góðum vilja og metnaði heilbrigðisráðherra á Seltjarnarnesi, en það var einungis hægt að nýta helming af rýmunum vegna þess að það vantaði mannskap.

Fjórði minni hluti leggur til að fjárheimildir til málefnasviðs 25.10, sem er akkúrat málefnasviðið um hjúkrunarheimili, verði auknar um 2 milljarða kr. til að koma eins og ég hef talað hér á undan til móts við þann rekstrarvanda sem hjúkrunarheimilin eiga nú við að glíma.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla. Mennta- og menningarmálaráðherra hyggst styrkja einkarekna fjölmiðla um 400 millj. kr. á næsta ári. Þegar halli er á ríkissjóði skýtur skökku við að ætla að styrkja auðmenn sem halda úti hagsmunatengdum fjölmiðlum og það á kostnað skattborgaranna. Fyrsta skrefið, ef við vildum styðja við fjölmiðla og veita þeim betri möguleika á markaðinum, væri að taka ríkisrekna fjölmiðilinn RÚV af auglýsingamarkaði í stað þess að bæta öllum hinum á ríkisspenann. 4. minni hluti leggur því til að þær fjárheimildir sem áætlað er að setja í málaflokkinn verði dregnar til baka. Um er að ræða 400 millj. kr. sem var áætlað að styðja við fjölmiðla og það er einmitt sama upphæð og 3 millj. kr. betur sem skert er til lögreglunnar, samanber fjárlögin sem við erum nú að fjalla um.

Einnig er skert um tugi milljóna til Landhelgisgæslunnar. Samtals var þessi skerðing í krónum talin tæpar 480 millj. kr. Það er með hreinum ólíkindum. Á sama tíma erum við að tala um stóreflt átak í löggæslu. Eins og ég nefndi í fyrri hluta ræðu minnar erum við núna að glíma við einhverja mestu vá sem íslenskt samfélag hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir hvað varðar fíkniefnafaraldur og skipulagða glæpastarfsemi.

Ríkisvaldinu ber að tryggja tvennt í heimi hér, að fylgja allsherjarreglu og tryggja öryggi borgaranna. Þrátt fyrir það hefur ástandið í glæpa- og fíkniefnaheiminum hérlendis aldrei verið eins alvarlegt. Ólögleg vímuefni flæða inn í landið í óþekktu magni og skipulögð glæpastarfsemi hefur skotið hér rótum. Þetta ástand er, eins og ég er margbúin að segja, gjörsamlega fordæmalaust. Til að sporna gegn þessari vá þarf m.a. að efla frumkvæðislöggæslu til muna. Til þess þarf lögreglan að fá aukið fjármagn. Við þurfum að fjölga lögreglumönnum, örugglega ekki minna en um 200. Því leggur 4. minni hluti til að fjárveitingar til málasviðs löggæslunnar verði auknar um 2 milljarða kr.

Loks vil ég nefna fjármögnun aukinnar velferðar. Nauðsynlegt er að ráðast í úrbætur á velferðarkerfinu. Þær þarf þó að fjármagna. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu þess efnis að staðgreiðsla verði við inngreiðslu í lífeyrissjóði en ekki við útgreiðslu. Þær breytingar myndu skila ríkissjóði talsverðum fjármunum án þess að skerða ráðstöfunartekjur borgaranna. Þeir fjármunir myndu duga til að rétta hallarekstur ríkissjóðs sem nú er áætlaður ríflega 9 milljarðar kr. og myndi duga til að fjármagna breytingartillögur 4. minni hluta að fullu og gott betur en það.

Flokkur fólksins er þó ekki í ríkisstjórn, því miður fyrir þá sem við setjum í fyrsta sæti, fólkið. Þá er ólíklegt að tekið verði utan um þá lausn sem við höfum hér fram að færa og henni fylgt eftir. Í staðinn verður ríkissjóður rekinn með 9,4 milljarða kr. halla. Stjórnvöld ætla áfram að hanga á handónýtu mannvonskukerfi sem fáir skilja, eða enginn. Veikt, gamalt fólk fær ekki aðgang að hjúkrunarheimilum, stjórnvöld skattleggja fátækt grimmt og skerða kinnroðalaust þau sem veikast standa. 12–15% barna líða hér mismikinn skort. Grunnþörfum borgaranna er ekki mætt, fólk skortir fæði, klæði og húsnæði. Viljaleysi ríkisstjórnarinnar er algjört þrátt fyrir þunga undiröldu og kröfur um aukið réttlæti til handa þeim sem eru með tekjur langt undir fátæktarmörkum.

Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma státar ríkisstjórnin af fordæmalausu góðæri. Eins og ég hef sagt áður og segi enn nýtist það fordæmalausa góðæri ekki öllum, það nýtist bara sumum, en á sama tíma er fátæku fólki neitað um réttlæti.