150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:44]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt að ég hef staðið hér og sagt að ég vilji forgangsraða fjármunum fyrir fólkið fyrst. Það er rétt að þetta verða 70.000–110.000 kr. á ári þegar það verður að fullu komið til framkvæmda. Ef við deilum þessum 70.000 kr. niður á 12 mánuði verða það um 8.000 kr. — eða hvað var það, hv. þingmaður? Staðreyndin er sú að 21 milljarður sem skilar ekki meiri ábata en raun ber vitni við þetta inngrip segir mér aðeins að Flokkur fólksins lagði fram þingsályktunartillögu eða frumvarp, ég man ekki einu sinni hvort heldur er því að ég er búin að vera svo dugleg í þinginu í vetur, hef bara hrúgað þessu þarna inn, og talar fyrir 300.000 kr. lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust. Hér er ég að hugsa um fólk sem er með undir 325.000–600.000 kr. á mánuði. Já, þessum fjármunum finnst mér ekki rétt varið, 21 milljarður í akkúrat þetta. Það er frábært að fá 8.000 kr. á mánuði um leið og verið er að dúndra á okkur alls konar sköttum þannig að þessar 8.000 kr. munu hverfa gjörsamlega sporlaust mjög fljótlega. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að þrátt fyrir góðan vilja og þriðja skattþrepið finnst mér að margt annað hefði mátt gera og margt öðruvísi fyrir það risafjármagn sem fer í þetta og nýtist í pínulitlum krónum fyrir þá sem fá.