150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Hv. þingmaður kom inn á skattalækkanir og breytingar á skattþrepum, fjölgun skattþrepa. Nú vil ég taka fram að við í Miðflokknum erum að sjálfsögðu hlynntir skattalækkunum. Ísland er háskattaríki og það er tími til kominn að við hugum að því að lækka enn frekar skatta á fólk og fyrirtæki í þessu landi og það er svigrúm til þess nú þegar skuldastaða ríkissjóðs hefur batnað verulega á undanförnum árum, eins og hv. þingmaður kom inn á.

Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hv. þingmann um framsetninguna á þessum tillögum ríkisstjórnarinnar. Því er haldið fram og það sett í svolítinn fyrirsagnastíl, að það sé verið að lækka skatta og auka ráðstöfunartekjur þeirra lægst launuðu um 10.000 kr. á mánuði með þessum tillögum. En að sama skapi er verið að hækka ýmis gjöld. Þar má nefna t.d. kolefnisgjaldið, gjald í úrvinnslusjóð, hækkanir á áfengi og tóbaki, þjónustugjöld og ýmis gjöld á vegum ríkisins. Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á þessa skattalækkun og dregur úr henni, minnkar ráðstöfunartekjur þeirra sem hér er verið að tala um sérstaklega. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Er ekki eðlilegt að framsetningin sé um nettóskattalækkunina? Hver er í raun og veru skattalækkunin þegar búið er að horfa í þessar hækkanir sem eru t.d. bara gjaldskrárhækkanir ríkisins? Öll gjöld á vegum ríkisins hækka um 2,5% um næstu áramót. Er ekki svolítið verið að blekkja almenning með því að setja þetta svona fram, þ.e. lækka skatta um þetta (Forseti hringir.) mikið, eða 10.000 kr. í ráðstöfunartekjur, en síðan er fullt af gjöldum að hækka á móti?