150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Mig langar að vinda mér aðeins yfir í þann málaflokk sem tilheyrir velferðarnefnd. Ég átta mig á því að hv. þingmaður situr ekki þar heldur, en væntanlega verður hún vör við þá umræðu, eftir að hafa setið í fjárlaganefnd, sem hefur verið árum saman varðandi stöðu Landspítala. Stofnanir um allt land hafa brugðið á það ráð á undanförnum árum að loka deildum og hætta þjónustu við landsmenn hvar sem er um landið, hvort sem er í dreif- eða þéttbýli þannig séð, vegna fjárskorts. Þar hefur því miður ríkisstjórnin ekki svarað ákalli um nauðsynlegar fjárveitingar, hvorki í fyrra þar sem óskað var eftir 800 milljóna innspýtingu né núna, alla vega ekki á milli 1. og 2. umr. Stofnanir um landið þurfa að draga úr þjónustu sem leiðir eingöngu til þess að Landspítalinn fær þetta allt inn til sín af því að Landspítalinn er endastöð. Landspítalinn getur því miður ekki sagt bara: Nei, við sinnum þessu ekki. Þeim stendur það ekki til boða sem þjóðarsjúkrahúsi. Þess vegna vil ég heyra afstöðu hv. þingmanns til þess annars vegar að samþykkja tillögur 1. minni hluta, þ.e. fulltrúa Samfylkingarinnar, er varða það að auka við fjárheimildir til Landspítala – háskólasjúkrahúss og hins vegar auka fjárheimildir til þeirra heilbrigðisstofnana sem eru víða um land. Við hljótum að vera sammála því að það er sjúklingi betra ef ekki er um að ræða enn flóknari aðgerð en svo að fá þjónustuna í heimabyggð.