150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:20]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur svo sem ekki á óvart þegar maður hlustar á þingmenn Samfylkingarinnar í ræðustól að sýndarmennskan er með ólíkindum, það er falskur tónn í öllu. Það virðist vera algjörlega óumflýjanlegt þegar þingmenn Samfylkingar koma hér í ræðupúlt. Ég spyr hv. þingmann hvort hann viti hve margir starfsmenn voru að vinna við efnahagsbrot fyrir hrun og hve margir þeir eru núna eftir að hrunmálum er lokið. Það fyrsta sem mönnum dettur í hug, þegar upp kemur mál í Kveik í gær, er að leggja 210 milljónir til héraðssaksóknara, í rannsóknir á efnahagsbrotum. Þetta er sýndarmennska sem er út fyrir öll mörk. Þetta mál verður auðvitað að rannsaka og það er í rannsókn. Menn þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þetta mál verði ekki rannsakað þó að svona tillaga komi ekki fram. Þetta er eiginlega komið út fyrir öll eðlileg mörk, þessi sýndarmennska, hv. þingmaður. Það er alveg það sama með veiðigjöldin, sýndarmennskan er endalaus þar. Hér hafa menn haldið því fram hvað eftir annað að í fjárlögum sé verið að lækka álögur á útgerðina. Það er auðvitað hægt að blekkja marga með þessu, hv. þingmaður. En þú blekkir ekki aðra þingmenn, hv. þingmaður, og blekkir ekki fjárlaganefnd. Ef stjórnmálaflokkur vill vera trúverðugur verða menn að láta af þessu, a.m.k. draga eitthvað úr sýndarmennsku af því tagi, þegar allir eru farnir að reyta hár sitt hér á þingi yfir þessari vitleysu.