150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:30]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ágæta ræðu. Ég biðst velvirðingar á látbragðsleik mínum sem mér finnst hafa eyðilagt ræðuna eða stytt hana verulega. Hv. þingmaður beindi til mín spurningu um fjármagnstekjuskattinn og ég held sjálfur að í því sé mikil flækja fyrir okkur að reyna að reikna út hinar raunverulegu fjármagnstekjur. Það hefur verið útbreitt í umræðunni að menn séu að greiða lítinn skatt af fjármagnstekjum en massinn greiðir skatta af engum tekjum vegna þess að skattur er greiddur af öllum verðbótunum. Það er ákveðinn vandi sem við glímum við. Ég spyr hv. þingmann hvort ekki væri einfaldara að lækka þennan skatt eins og við gerðum áður í staðinn fyrir að fara í þá flóknu aðgerð að reyna að finna nákvæmlega út hinar raunverulegu tekjur. Ég veit að nágrannaþjóðirnar eru með skatt á svipuðum nótum og við núna en þar greiða menn í raun og veru lægri skatt vegna þess að hann er tekinn af raunverulegum tekjum. Það kallar á mjög þungt kerfi hjá okkur. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér í að það væri einfaldara að lækka skattinn. Við sjáum hver massinn af fjármagnstekjum er fyrir hinn venjulega Íslending. Þótt það sé að vísu frítekjumark borgar hann fjármagnstekjuskatt af engum tekjum.