150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy athyglisverða ræðu. Hv. þingmaður kom inn á menntun og nýsköpun. Ég vil koma hér upp, fyrst til halda því til haga að ég tek undir með hv. þingmanni. Þetta er til framtíðar litið og hvernig sem við veltum fyrir okkur hagfræðikenningum eða hverju sem er held ég að við getum flest öll verið sammála um það að framtíðarhagvöxtur byggir ekki síst á nýsköpun, rannsóknum og menntun. Ég held að peningum sé því, með ákveðnum fyrirvörum þó, alltaf vel varið í menntun og nýsköpun. Við verðum auðvitað að passa upp á að nýta peningana vel, svo það sé nú sagt, herra forseti.

Ég vildi halda því til haga hér að við höfum á kjörtímabilinu 2017 fram á næsta fjárlagaár aukið fé í nýsköpun um 13,8% að raungildi sem í samhengi hlutanna er nokkuð hátt hlutfall, hvort sem sá samanburður er aftur í tíma eða við vægi annarra fjárlagaliða þar sem ekki eru mjög dýrar fjárfestingar. Við höfum líka aukið í framhaldsskólana að raungildi á þessum tíma um 1,4%, þ.e. þar eiga styttingarpeningarnir að nýtast í hærri framlögum á hvern nemanda. Við höfum hækkað framlög í háskólana að raungildi um tæpa 3 milljarða, 6,4%, þannig að við erum að hugsa þetta eins og hv. þingmaður var að tala um.

Spurningin er þessi, af því að hv. þingmaður vísaði í skýrslu (Forseti hringir.) um að mögulega værum við ekki að fá nægilega mikið fyrir peningana: Getur þingmaðurinn aðeins farið yfir hvaða skýrsla það var og hvaða mælikvarðar þetta eru?