150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:06]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við höfum hér fjárlögin til umfjöllunar og má segja að við séum á lokametrunum í þessari lotu. Þetta eru fjárlög sem í fyrsta sinn í sjö ár, frá 2013, verða rekin með halla og það er ýmislegt sem kann að hafa áhrif. Hagstofa Íslands hefur m.a. bent á aukna óvissu í efnahagshorfum hér á landi, eins og það er kallað, og ljóst er að hægt hefur á í efnahagslífinu og þar af leiðandi þarf að grípa til viðeigandi aðgerða.

Í þessu sambandi verður að nefna títt rædda innviði þar sem leggja þarf töluvert til þeirra, sérstaklega þegar stendur á eins og núna. Það fyrsta sem ég vil nefna hér og ég legg höfuðáherslu á eru heilbrigðis- og velferðarmál. Við þingmenn Miðflokksins höfum lagt fram breytingartillögur sem miða að því að hlúa m.a. að þeim. Þó eru vissulega nokkrir óvissuþættir sem hafa áhrif og þar nægir að nefna ferðaþjónustuna sem mikinn áhrifavald í því sambandi þar sem hún hefur verið síðustu misseri mikill burður í atvinnulífinu hér á landi og þar með mikilvæg uppspretta gjaldeyristekna. Það skiptir máli hver þróunin verður á komandi misserum og brýnt að stjórnvöld og við öll sem hér erum séum vakin og sofin yfir þessari þróun. Það er ánægjulegt að sjá að fyrstu skref virðast vera tekin til að stækka flugstöðina á Akureyri og heimamenn horfa til fjárfestingaraðila eins og KEA sem nú þegar hafa lagt fram teikningar sem hægt væri að fara eftir. Einnig voru fréttir af því í dag að heimamenn væru að vinna að því að koma áfram millilandaflugi milli Akureyrar og Bretlands.

Það voru aðeins vonbrigði að sjá að Flugþróunarsjóður er ekki virkur þótt ég viti eða þykist vita að til hans verði kallað, ef við getum orðað það þannig, ef þetta millilandaflug kemst aftur á sem ég vona auðvitað að verði. Tillögur okkar, þingmanna Miðflokksins, miða að því að einhenda sér í að skapa öflugar forsendur fyrir góðu og styrku atvinnulífi og að skattstefna ríkisstjórnarinnar ætti að fela í sér hvata til að skapa skilyrði fyrir nýsköpun og að gera nýsköpunarfyrirtækjum kleift að ná fótfestu þannig að það verði samfella í þeirri þróun sem virkilega er þörf á í þessum hraða heimi framfara.

Í dag fengum við gesti á þingflokksfund. Það voru gestir frá Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN. Þetta eru frumkvöðlar og hugvitsmenn sem telja hátt í 400 manns. Það er leitt að heyra að þeir hafi ekki fengið stuðning við starfsemi sína. Þeir sendu erindi til fjárlaganefndar þar sem þeir óskuðu eftir 2,5 milljónum til að standa undir einhvers konar starfsemi en eins og staðan er í dag er allt unnið í sjálfboðaliðavinnu. Ég vonast til þess að fjárlaganefnd taki þetta til endurskoðunar og ég hvet fjárlaganefnd til að finna erindið frá þessum aðilum og endurskoða beiðni þeirra. Þegar við erum að tala um nýsköpun er svo mikilvægt að keðjan verði samfelld. Ég vil nefna skólana alla, öll skólastigin, allt frá leikskóla upp í háskóla. Það eru engin skólastig þar á milli sem eru minna mikilvæg. Þáttur verkmenntaskólanna er mjög mikilvægur í þessu sambandi og við verðum að sjá til þess að við aukum við verkmennt í landinu.

Við þingmenn Miðflokksins leggjum fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem eru að fullu fjármagnaðar og auka þar með ekki á halla ríkissjóðs. Í því sambandi er vert að minna á að ætíð skal ríkja skilvirkni við meðferð opinberra fjármuna sem eru ekki annað en almannafé. Ár eftir ár vex umgjörð stjórnkerfisins á Íslandi og kostnaðurinn sem því fylgir. Sá kostnaður er greiddur af skattgreiðendum og þess vegna þarf að draga úr íþyngjandi regluverki og passa að báknið vaxi ekki enn frekar. Þegar um er að ræða vinnumarkaðinn er mikilvægt að hafa í huga að margir hafa misst vinnuna undanfarin misseri. Eins og fram kom í minnihlutaáliti Birgis Þórarinssonar, þingmanns okkar í fjárlaganefnd, eru nú um 7.000 manns án atvinnu og þeim hefur fjölgað um 2.700 á einu ári. Við þær aðstæður er mikilvægt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum, t.d. með því að lækka tryggingagjaldið. Við erum hér á landi með næsthæstu skatta á fyrirtæki, næsthæstu skatta á Norðurlöndum, á eftir Noregi, og ljóst að hátt tryggingagjald kemur hvað verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar þeirra. Það er eiginlega undarlegt að stjórnvöld hafi ekki lagt það fram eða lagt sitt af mörkum til að beita sér í að lækka tryggingagjaldið enn frekar umfram þá litlu lækkun sem sett var fram, sérstaklega í ljósi þess að fyrirtæki hafa þurft að segja upp fjölda manns undanfarin misseri.

Ég vil einnig ræða aðstæður hjúkrunarheimila í landinu þar sem þau eru meðal mikilvægustu heimila landsins. Það bólar ekkert á efndum þeirra fyrirheita að styrkja rekstrargrunn þeirra og til að segja það hreint út má halda því fram að nú um stundir sé rekstur þeirra í algjörri upplausn. Það kom skýrt fram á málfundi sem haldinn var á Hótel Natura í gær og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson rakti hér fyrr. Stöðugt hefur verið dregið úr rekstrarframlagi til hjúkrunarheimila og ég geri mér fulla grein fyrir því að á sama tíma viljum við gjarnan auka í þjónustu sem veitt er inni á heimilum fólks þannig að það geti frekar búið heima. Ég held að það þurfi að fara í þessar aðgerðir samhliða en mér sýnist ekkert vera að gerast þar heldur. Við stöndum frammi fyrir því að ekki virðist vera neitt samtal milli hjúkrunarheimilanna og Sjúkratrygginga Íslands en rammasamningurinn þar í milli rann út í árslok 2018 þegar Sjúkratryggingar breyttu einhliða aðferðafræði sinni við útgreiðslu fjármagns. Það er mjög ámælisverð ákvörðun og eiginlega furðuleg, ákvörðun sem var tekin án viðræðna við hjúkrunarheimilin, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eða sveitarfélögin sem sum hver reka þessi heimili.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2020–2024 kemur fram að stærsta verkefni ríkissjóðs í tengslum við málefnasvið hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu sé átak sem felst í því að fjölga hjúkrunarrýmum, bæði með endurgerð eldri rýma og byggingu nýrra, þ.e. að byggja ný hjúkrunarheimili. Það er ljóst að þau rými sem nú eru á teikniborðinu munu ekki standa undir því sem þarf. Því þarf að fara djúpt ofan í saumana á fjárhagsgrunni hjúkrunarheimilanna og jafnvel þarf að kafa enn betur í skýrslur Ríkisendurskoðunar sem hafa verið gefnar út á málefnasviðinu. Það er nauðsynlegt að styrkja rekstrarfé sem hefur orðið hjá spítölum, heilbrigðisstofnunum og heilsugæslu en það er erfitt að horfa upp á að á sama tíma hefur verið skorið niður hjá hjúkrunarheimilum. Það er nokkuð sláandi staðreynd þegar okkur ber að huga eins vel og við getum að þeim sem eldri eru.

Í minnihlutaáliti Birgis Þórarinssonar segir, með leyfi forseta:

„Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa ítrekað bent á að nauðsynlegt sé að styrkja rekstur hjúkrunar-, dvalar-, dagdvalar- og endurhæfingarrýma. Rekstur hjúkrunarheimila á landsbyggðinni er afar þungur. Það kemur m.a. til af því að ómögulegt er að ná fram þeirri stærðarhagkvæmni sem næst með þeim fjölda rúma sem alla jafna þekkist á höfuðborgarsvæðinu.“

Að þessu sögðu þarf að hafa í huga að við viljum gjarnan að fólk geti verið í þjónustu á hjúkrunarheimilum í heimabyggð sinni. Varla ætlum við að flytja alla á suðvesturhornið.

Það er mikilvægt að bæta kjör eldri borgara og þeirra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur. Það er óboðlegt að fara fram með skerðingar á bótum almannatrygginga og það er óþolandi að lífeyrisþegar geti ekki unnið án skerðinga því að það verður að vera þannig að allir geti bætt hag sinn. Þar að auki gefur það lífinu meiri fyllingu þar sem félagslegir þættir gegna lykilhlutverki. Þeir sem falla út af vinnumarkaði upplifa sig margir hverjir ekki þátttakendur í samfélaginu. Allir vilja tilheyra samfélagi og allir vilja leggja af mörkum til samfélagsins geti þeir það og ég held að það sé mjög mikilvægt atriði til að hafa í huga. Eldri borgarar og þeir sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur bíða enn eftir réttlætinu eins og við höfum oft heyrt. Skerðingar eru enn við lýði og hafa neikvæð áhrif, milt sagt, á andlega og líkamlega heilsu fólks. Við í Miðflokknum leggjum áherslu á að breyta kerfinu sem gerir ekkert annað en að letja fólk til samfélagslegrar þátttöku. Þeir sem eldri eru hafa skilað ævistarfi sínu og eiga það skilið að búa við góð kjör og öryggi. Við viljum að lífeyrisþegum verði gert kleift að bæta hag sinn með aukinni vinnu án þess að þurfa að þola skerðingar á skerðingar ofan. Og það mun ekki hafa neikvæð áhrif á ríkissjóð.

Flestir gera sér grein fyrir því að Landspítali er mikilvægur. Landspítali er einnig stærsta heilbrigðisstofnun landsins. Á spítalanum starfar fagfólk sem vinnur baki brotnu og oft við erfiðar aðstæður. Það er margslunginn vandi sem mætir okkur á Landspítala og nefnt hefur verið að þar liggi fólk sem með réttu ætti að fá að dveljast á hjúkrunarheimilum. Einnig má nefna að oft er fjallað um mönnunarvanda spítalans. Það er því gleðiefni að Háskóli Íslands ætli sér að nýta öll hjúkrunarnemaplássin sín sem hann hefur ekki áður gert. Það hefði líka verið skref í rétta átt að auka fjármagn til Háskólans á Akureyri þannig að skólinn gæti tekið við fleiri hjúkrunarfræðinemum. Mjög margir sóttu um nám í hjúkrunarfræði en fengu ekki pláss. Auk þess hefði mátt leggja til að styrkja sérstaklega þá skóla sem bjóða upp á sjúkraliðanám. Við vitum að það er skortur í þessum fagstéttum og við þannig kringumstæður þarf að grípa til óvenjulegra aðgerða. Hafa ber í huga að Landspítalinn er bæði bráðasjúkrahús og héraðssjúkrahús og ég velti fyrir mér hvort það samrýmist að reka þessar einingar saman. Spítalinn er orðinn of stór, yfirbyggingin er orðin of mikil o.s.frv. Eitt er ljóst, að álag á heilbrigðiskerfið mun aukast jafnt og þétt næstu ár og jafnvel áratugi og að mínu viti þarf að hleypa fleirum að borðinu. Ég nefni sjálfstætt starfandi lækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga og aðra með sérþekkingu í heilbrigðismálum. Margir þessara aðila eru án samninga og upplausn ríkir. Biðlistar eru að lengjast, sérstaklega biðlistar eftir hjúkrunarrýmum, og landlæknir hefur lýst yfir áhyggjum af stöðunni. Þess vegna höfum við í Miðflokknum lagt áherslu á að mæta þessum vanda og við erum með breytingartillögu um að auka framlag til hjúkrunarheimila til þess að geta losað um þann tappa sem virðist vera á Landspítala. Það þýðir ekki að setja meira fjármagn inn í spítalann, það þarf einhvern veginn öðruvísi aðgerðir og þess vegna leggjum við þetta fram.

Það er stefna heilbrigðisráðuneytisins að efla heilsugæslu sem fyrsta viðkomustað þeirra sem þurfa á þjónustu að halda. Í minnihlutaáliti Birgis Þórarinssonar, okkar þingmanns í fjárlaganefnd, segir, með leyfi forseta:

„Forstjórar heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni komu á fund fjárlaganefndar. Í máli þeirra kom fram að enn er þörf á að styrkja rekstur stofnananna að lágmarki um 800–900 millj. kr. á ári eins og rætt var um á fundi með fjárlaganefnd árið 2017 til þess að þær geti sinnt þeirri þjónustu sem til er ætlast.“

Þess vegna leggjum við fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að 250 milljónir verði settar til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni til að mæta brýnasta vandanum. Ég er á því að hugsa þurfi módelið upp á nýtt. Ég er á því að dreifa eigi álaginu. Að þessu sögðu verður mér hugsað til vanda sem sjúkraflutningafólk stendur frammi fyrir en sá vandi er ærinn. Það þarf að styrkja möguleika lífeyrisþega á almennum vinnumarkaði og hér á landi er atvinnuþátttaka þeirra minni en í þeim löndum sem við berum okkur saman við og umfang starfsendurhæfingar er mun minna. Mörg lönd hafa farið þá leið að endurskoða kerfin sín með það að markmiði að gera lífeyrisþegum kleift að sinna vinnu. Að mínu viti ætti það að vera fyrsta skref stjórnvalda að skapa störf til að fólk geti lagt sitt af mörkum. Við sjáum að fjöldi lífeyrisþega mun aukast og þess vegna þurfum við að grípa til aðgerða.

Flækja kerfisins er fullmikil og brugðið hefur verið á það ráð að setja fram svokallað starfsgetumat sem þýðir að fyrst þarf að meta fólk, sjá hvort það geti sinnt þessum störfum. Ég tel að þar sé byrjað á röngum enda. Ég sé leiðina þannig að byrjað verði á því að setja fram störf. Það er jafnvel hægt að fara í að auglýsa eftir þátttakendum, fara í nokkurs konar reynsluverkefni og sjá skref fyrir skref hvernig gengur vegna þess að við þurfum að vanda okkur. Við viljum helst ná að grípa alla sem við þurfum að grípa. Þetta þarf að sjálfsögðu að vinna í samvinnu hins opinbera og svo þeirra sem eru á almennum markaði. Okkar tillaga er því að efla Vinnumálastofnun sem hefur starfsstöðvar um allt land og býr yfir þeirri sérþekkingu sem þarf. Tækifæri til atvinnuþátttöku þurfa að vera raunveruleg og leiðin þarf að vera árangursrík og mikilvæg fyrir þá sem vilja og hafa getu til að vera á vinnumarkaði.

Að þessu sögðu legg ég áherslu á að hugað verði sérstaklega að þeim sem glíma við geðræna sjúkdóma og að lokum vil ég aðeins minnast á að ég er nokkuð sátt með að sjá að Grófin, geðverndarmiðstöð fær fjármagn til að standa undir starfsemi sinni enda hefur Grófin, geðverndarmiðstöð fest sig í sessi og hefur aðsókn haldist stöðug. Um það bil 60 manns nýta sér starfsemina í hverjum mánuði og að meðaltali 18 manns mæta í miðstöðina á dag. Það má segja að Grófin sé svar Norðurlands við sambærilegri starfsemi og fer framhjá Hugarafli, Klúbbnum Geysi, Hlutverkasetri og Bataskóla Íslands auk Píeta-samtakanna og Bergsins – Headspace. Það er mjög ánægjulegt að sjá að þetta er komið á blað.