150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fór yfir tillögur Miðflokksins og kom víða við. Ég ætla bara að koma inn á örfá atriði, aðallega til að koma hv. þingmanni til aðstoðar með það sem hann var í einhverjum vafa um. Í fyrsta lagi er tryggingagjald að lækka svo því sé haldið til haga. Í öðru lagi hafði hv. þingmaður efasemdir um hagstjórn og aðkomu þingsins og hv. fjárlaganefndar að því fjárlagaferli sem ríkisfjármálaáætlun og fjárlög eru. Ég held að við ættum að tala varlega þegar við erum með slíka sleggjudóma. Ég ætla bara að tiltaka eitt í þessu samhengi. Við endurskoðun ríkisfjármálastefnu beitti hv. fjárlaganefnd sér fyrir því að byggja inn meira svigrúm en ætlað var. Það kemur sér mjög vel við þessar kringumstæður. Þarna þarf að vera jafnvægi á milli fjárlaga, stefnu ríkisstjórnarinnar og vinnu Alþingis. Hér er bara eitt dæmi um það. Svo verðum við að horfa á þetta í ferli. Margar af þeim tillögum sem verða til í fjárlögum eiga sér stoð í ríkisfjármálaáætlun.

Ég gæti vísað í Peningamál Seðlabankans og fleira en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að slökun í aðhaldi ríkisfjármála og lækkun stýrivaxta fyrr á árinu hafi verið rétt hagstjórnarviðbrögð af hálfu stjórnvalda og hafi mildað höggið á hagkerfið, að hagstjórnarviðbrögð stjórnvalda hafi í senn verið rétt og hröð. AGS segir að styrkar stoðir efnahagslífs og trúverðugleiki hagstjórnaraðila hafi gert það að verkum að niðursveiflan nú sé mildari en ella (Forseti hringir.) þannig að því sé haldið til haga, hv. þingmaður.