150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

tengsl ráðherra við Samherja.

[10:45]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það væri ágætt ef hæstv. sjávarútvegsráðherra þyrfti ekki að standa hérna og sannfæra okkur um að hann sé traustsins verður. (Gripið fram í.) Mér finnst það svara spurningunni sem ég spurði, hvort hann teldi að ásýnd skipti öllu máli. Ég tel hann hafa svarað spurningunni með neii, hann telur ásýnd ekki skipta öllu máli, því að það er mjög augljóst að hann treystir sjálfum sér og telur það mikilvægara en hvernig tengslin blasa við öðrum. Samherji og tengd félög eiga rúmlega 15% af öllum kvóta á Íslandi. Nú hefur hæstv. ráðherra ítrekað sagt að hann muni segja sig frá málum sem tengjast Samherja í ljósi þess að hann er persónulegur vinur forstjóra félagsins og fyrrverandi stjórnarformaður þess, eins og eðlilegt er að segja sig frá málum. En hvernig er hægt að taka einhvers konar ákvarðanir um kvótakerfið í heild sinni, varðandi t.d. lækkun veiðigjalda, án þess að það hafi veruleg áhrif á nákvæmlega þau félög sem eru tengd hæstv. ráðherra?

Ég hlýt því að spyrja einfaldlega: (Forseti hringir.) Hversu oft hefur hæstv. ráðherra þurft að segja sig frá einstaka ákvörðunum sem tengjast sjávarútvegi vegna tengsla við Samherja og tengd félög? Hversu oft? Mig grunar að svarið sé: Aldrei. En það væri fróðlegt að heyra frá ráðherra.