150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

vera Íslands á gráum lista og aðgerðir gegn peningaþvætti.

[11:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þau gögn sem liggja fyrir í málinu núna, þó að auðvitað sé erfitt að leggja mat á það, sýna á engan hátt að íslenskt regluverk hafi brugðist og ef svo er verður það skoðað. En Namibía eða Noregur eru ekki á þessum gráa lista. Samkvæmt þeim fréttum sem við horfðum á virtist það peningaþvætti hafa farið fram þar í gegn og ég vek athygli á því að þau eru þá með þessi venjulegu, góðu og gildu vottorð frá FATF. Auðvitað tökum við þetta alvarlega en ég held að engin ástæða sé til að tala kerfið okkar niður. Við erum búin að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bregðast mjög hratt við þeim ábendingum sem hafa komið fram, höfum unnið mikla vinnu til að hafa kerfin okkar í lagi og að sjálfsögðu viljum við öll að slík kerfi séu í lagi og að þau virki. En það er engin ástæða til að tala þau niður að óþörfu. Við viljum aftur á móti að bæði þau kerfi en líka kerfi sem tekur á þessum málum, máli sem er komið til héraðssaksóknara og fer í gegnum réttarkerfið okkar, virki sem skyldi.