150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 2. umr. fjárlög 2020 sem byggja á hinni svokölluðu fjármálaáætlun til fimm ára. Við þurftum að taka hana upp aftur þar sem forsendur hennar höfðu eiginlega brostið bara strax á meðan var verið að prenta doðrantinn sem var lagður fyrir okkur, fjármálaáætlunina sem bar það með sér að það ætti ekkert að gera frekar til að hækka laun og auka afkomu þeirra og bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu og þessi merki bera fjárlög fyrir árið 2020. Fátækasta fólkið í landinu á enn að bíða eftir réttlæti. Þeir sem lifa einungis á framfærslu frá Tryggingastofnun eiga enn að vera með í kringum 240.000 kr. útborgaðar. Skattalækkun ríkisstjórnarinnar mun bæta kjör þeirra á næsta ári um rúmar 2.000 kr. á mánuði.

Við stöndum frammi fyrir fordæmalausri vá sem lýtur að skipulagðri glæpastarfsemi í landinu. Við horfum fram á fordæmalausan og ótímabæran dauða ungmenna og annarra í landinu vegna ofneyslu á fíkniefnum, vegna eitrunar af lyfjum, vegna sjálfsvíga. Það er ekkert sérstakt átak sem ráð er fyrir gert í þessum fjárlögum til að sporna gegn því, til að mæta því sem ég tel í dag vera einhverja mestu vá sem við sem þjóð höfum nokkurn tíma horfst í augu við. Það er ekki sett ein einasta viðbótarkróna í löggæsluna, ekki ein. Hins vegar er dregið úr framlögum til löggæslu um ríflega 400 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2020. Við erum enn að horfa á biðlistana og þrátt fyrir þann góða vilja að reyna að koma til móts við vanda eldri borgara með fjölgun á hjúkrunarrýmum er það líka á kostnað dvalarrýma. Við erum alltaf eins og hamsturinn í hjólinu á fleygiferð. Ég hélt klukkutíma ræðu um þetta í fyrrakvöld, þó að hún hafi verið slitin í sundur vegna matarhlés eða hvað sem það var nú, sem var svolítið athyglinnar virði, en þar sagði ég í rauninni allt sem segja þarf og ég þarf ekkert að vera lengja þessa umræðu meira.

Flokkur fólksins hefur gert breytingartillögur. Við viljum stórefla, leggja 2 milljarða kr. í löggæslu, við viljum leggja 5 milljarða kr. í Landspítala – háskólasjúkrahús og aðra sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Við viljum tryggja öllum landsmönnum aðgang að heilbrigðisþjónustu án þess að þeir þurfi að liggja einhvers staðar og bíða allt of lengi eftir fyrstu hjálp. Við setjum fólkið í fyrsta sæti og það er dapurt að horfa á það enn og aftur að það gerir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur alls ekki. Það er fólkið fyrst og ríkisstjórn sem ekki getur haldið uppi allsherjarreglu og verndað borgarana í landinu er ríkisstjórn sem er ekki bær til að stjórna.