150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér í vor við afgreiðslu fjármálaáætlunar voru 300 milljónir millifærðar af þróunarsamvinnu til varnarmála. Góðu heilli hefur peningunum verið bætt aftur inn í þróunarsamvinnuna en eftir sitja þessar 300 milljónir sem bætt var við til að tryggja óbreytta starfsemi varnarmannvirkja á Keflavíkurvelli. Sú starfsemi er of mikil nú þegar og fréttir sumarsins af milljarðauppbyggingu sem fyrirhuguð er á vegum Bandaríkjanna á Keflavíkurvelli bæta ekki úr skák. Í vor studdi ég ekki þessa uppbyggingu með atkvæði mínu og gerir það ekki heldur nú.