150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef það er enginn varasjóður er varasjóðurinn tómur. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst. Við erum að tala um 2020, við erum að líta þangað. Þannig að ég skil ekki hvernig hv. þingmaður ætlar að tryggja að við getum fjármagnað t.d. héraðssaksóknara þegar hann er ekki tilbúinn til að styðja breytingartillögu Samfylkingarinnar um að setja fjármuni í héraðssaksóknara, ekki tilbúinn til að leggja sjálfur fram breytingartillögu til að tryggja fjármagn til héraðssaksóknara og ekki til í að tryggja einhvern varasjóð málaflokksins sem næði til héraðssaksóknara. Þá þarf hann að grípa í almenna varasjóðinn og það er ekki hægt og það veit hv. þingmaður.

Ég skil ekki af hverju formaður fjárlaganefndar og Framsóknarmaðurinn vill sætta sig við að einn maður, formaður Sjálfstæðisflokksins, muni ákveða hversu mikið rannsóknaraðilar Samherjamálsins fá. Af hverju getum við ekki tekið þessa ákvörðun hér? Við erum að samþykkja breytingartillögu milli umræða um að setja pening til Vigdísarstofnunar, í snjómokstur, í Vínlandssetrið, í Flugsafn Íslands. Af hverju getum við ekki tryggt að eitthvað fari til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra? Ég bara skil ekki þessa (Forseti hringir.) pólitík, herra forseti.