150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er bara úr nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020 frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Það stendur skýrum stöfum að framlengja eigi frítekjumarkið óbreytt, 109.600 kr. Það hafi ekki verið uppfært frá 2009 og það verði hugsanlega skoðað 2020. Þetta er eiginlega stórfurðulegt vegna þess að þarna erum við að tala um frítekjumark öryrkja af atvinnutekjum, sem ætti að vera tvöfalt meira ef rétt hefði verið gefið, ef þetta hefði bara verið uppfært. Þetta er eiginlega óskiljanlegt að því leyti til að þetta heftir vinnugetu öryrkja. Þetta kemur líka í veg fyrir að ríkið fái skatttekjur af vinnu því að þetta er hagkvæmt fyrir ríkið en ekki óhagkvæmt.