150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að lög um meðferð opinberra fjármála hafi verið góð hugmynd. Mér finnst gott að við erum ekki í gömlu hjólförunum hvað það varðar. Nú gerum við fjármálaáætlun og fjármálastefnu og setjum svo fjárlög. Mér finnst það jákvætt. Ég vil gjarnan að við förum eftir þessum lögum, m.a. um varasjóð og annað slíkt, en ég veit að menn þurfa kannski tíma til að fóta sig þar.

Það sem ég var hins vegar fyrst og fremst að gagnrýna var hvað við gerum með þessar upplýsingar. Ég man þegar við ræddum um fjármálaáætlun í vor, þá breyttum við þar sama sem engu. Það var allt ósköp svipað og það kom frá ráðherranum. Það er það sem ég er svolítið ósáttur við, að við getum ekki nýtt okkur það fjárveitingavald sem við höfum. Ég átta mig samt alveg á því að það skiptir máli að hafa hér strúktúr og fimm ára áætlun er mjög jákvæð. Fyrirsjáanleikinn skiptir miklu máli en ef eitthvað er þarf að auka gagnsæið meira. Ég hef miklar mætur á hv. þingmanni og vil hrósa honum sem formanni nefndarinnar en ég hvet hann samt til betri verka. Þegar kemur að því að ná fram einhverri pólitík í okkar vinnu vitum við að margir umsagnaraðilar hafa einmitt gagnrýnt hversu ógagnsætt ferlið er.

Ég get svarað spurningunni svona: Já, ég styð heils hugar þann lagabálk sem við störfum eftir. Ég vil fara að sjá meiri pólitík í okkar vinnu því að annars skil ég ekki hvað við erum að gera hérna. Annars getur þetta alveg eins verið uppi í ráðuneyti. Ég stend alveg við það að ég tel mjög mikilvægt að það sé fyrirsjáanleiki og ég held að fimm ára áætlunin hafi svo sannarlega verið skref í rétta átt. Ef það er spurningin svara ég því játandi.