150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr: Er rétt að fara í þessa útgjaldaþenslu? Já, þegar kemur að því að skilja engan hóp eftir undir lágmarkslaunum finnst mér það rétt. Finnst hv. þingmanni rétt að öryrkjar hafi lægri tekjur en lágmarkslaun? Það virðist vera, verkin sýna það. Finnst hv. þingmanni rétt að skilja hóp eldri borgara eftir undir lágmarkslaunum? Verkin hans sýna það. Mér finnst það ekki vera rétt. Auðvitað átta ég mig á því að 38 milljarðar eru há upphæð. Ég set það í samhengi: Einn maður gekk út með 22 milljarða þegar hann seldi sig úr útgerðarfyrirtæki fyrir tveimur árum. Þegar við erum með 1.000 milljarða kr. ríkisreikning tel ég að við höfum mætavel efni á því að skilja engan eftir undir lágmarkslaunum. Þannig að: Já, og hér eru tekjuleiðirnar alveg fyrir hendi. Við höfum oft tekist á um þetta, ég og hv. þingmaður. Við eigum að hækka auðlindagjöld, að mínu mati, nú tala ég bara fyrir mig. Við getum hækkað fjármagnstekjuskatt, við getum hækkað kolefnisskatt. Við getum haft tekjutengdan auðlegðarskatt, við getum afnumið samnýtingu skattþrepa, við getum hert skatteftirlit. Skattsvik á Íslandi eru metin á 100 milljarða kr. Það er hægt að skilja engan eftir og undir lágmarkslaunum. Það er pólitísk ákvörðun sem tekin yrði hér.

Þegar spurt er á hvern ég hlusti segi ég: Jú, jú, ég get hlustað á OECD og Seðlabankann o.s.frv., og ég geri það, en ég hlusta líka á Öryrkjabandalagið. Ég hlusta líka á BSRB. Ég hlusta líka á BHM. Ég hlusta líka á ASÍ. Þetta eru allt stórir aðilar sem ég tek mark á og þeir aðilar eru allir sammála mér um að það er fullkominn óþarfi að skilja veikustu hópana eftir undir lágmarkslaunum.