150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Við tökum hérna fyrir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í 3. umr. Það væri mjög skemmtilegt að eiga samtöl við fulltrúa meiri hlutans um pólitíkina í þessu fjárlagafrumvarpi þegar við erum að sauma það saman en það er allnokkur skortur á þeim í salnum. Þau eru tvö en ég auglýsi eftir fleirum. Það sem mér þykir standa upp úr í umræðunni um þetta fjárlagafrumvarp og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eru andstæðurnar sem felast í annars vegar sjálfsánægju ríkisstjórnarinnar, getum við sagt, með það hvað hún sé að gera frábæra hluti í hagstjórninni af því að loksins hafi útgjaldaþensla hennar hitt á réttan tímapunkt í hagsveiflunni þar sem hennar er mögulega þörf og hins vegar þeirri gagnrýni sem gætir svo gjarnan í umsögnum aðila á nákvæmlega þessa sömu stefnu, sem minna er minnst á af hálfu ríkisstjórnarinnar, sem er að það eru ekki endilega réttu útgjöldin sem áhersla er lögð á.

Það er alveg rétt sem hér hefur verið haldið fram, það getur verið mjög jákvætt í hagstjórninni að ríkisfjármálunum sé beitt með sveiflujafnandi hætti. En það er ekki sama í hvað fjármununum er varið. Það að halda áfram í stjórnlausri útþenslu á ríkisbákninu, sem hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar frá því að hún var sett saman, en halda áfram að vanrækja nauðsynlegar innviðafjárfestingar er einfaldlega ekki skynsamleg efnahagsstefna og allra síst á tímum niðursveiflu í hagkerfinu. Það er miklum mun verðmætara fyrir hagkerfi í kólnun að fá nauðsynlega örvun í gegnum aukna fjárfestingu hins opinbera og ekki síður mikilvægar skattalækkanir hins opinbera en að samneyslan sé einfaldlega áfram aukin stjórnlaust eins og verið hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar. Á það skortir verulega í þessu fjárlagafrumvarpi. Við erum enn þá undir langtímameðaltali í opinberum fjárfestingum. Bent hefur verið á fjöldann allan af verkefnum sem enn líða fyrir þennan skort. Hér hefur nýlega verið undirritaður sérstakur samgöngusáttmáli við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þar sem rétt er að taka fram að hlutur ríkisins er enn ófjármagnaður og horft til aukinnar skattlagningar á almenning til að fjármagna þann hluta og mögulega eignasölu. Af hálfu ríkisstjórnarinnar er enn mjög óskýrt hvernig þeim fjárfestingum verður mætt.

Það sannast sem ríkisstjórnin var gagnrýnd fyrir strax í upphafi að lagt var af stað með allt of bjartsýnar forsendur um efnahagsþróun. Boginn var spenntur til hins ýtrasta á grundvelli þeirra hagspáa og núna situr ríkisstjórnin uppi með vanda sem mun reynast henni ærið þungur, ætla ég að spá, á næsta ári og inn á kosningaárið. Það er búið að spenna boga samneyslunnar svo hátt að það er ekkert svigrúm til nauðsynlegra fjárfestinga. Það er ekkert svigrúm til þeirra skattalækkana sem ríkisstjórnin lofar inn á kosningaárið 2021. Ég spái að á þeim grundvelli muni það reynast henni mjög þungur baggi að koma fjárlögum saman fyrir árið 2021. Enn er bent á að þrátt fyrir að hagspár hafi verið endurskoðaðar og fjárlagafrumvarpið lagað að því að einhverju leyti, fyrst og fremst með því að skapa svigrúm fyrir hallarekstur, eru enn blikur á lofti í íslensku hagkerfi. Enn er töluverð óvissa og alls ekki á vísan að róa með að hagþróunin verði okkur jafn hagfelld á næsta ári og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það sem er þó alveg sérstaklega gagnrýnivert, og þar ætla ég ekki bara að gagnrýna þessa ríkisstjórn heldur almennt stjórn ríkisfjármála, er hversu markmiðalaus útgjaldaþenslan er. Þegar fjallað er um útgjaldatillögur einstakra ráðuneyta í fjárlaganefnd liggja yfirleitt engin skýr eða skilgreind markmið fyrir um hverju útgjaldaaukningin eigi að skila eða, sem er öllu mikilvægara, hverju heildarframlög til málaflokksins eigi að skila.

Árangur þessarar ríkisstjórnar hefur fyrst og fremst verið mældur í því hversu mikið henni hefur tekist að auka ríkisútgjöldin, ekki hversu mikið henni hefur tekist að bæta þjónustu við íbúa landsins, hversu miklu skilvirkari ríkisreksturinn er orðinn eða hversu mikið svigrúm hefur tekist að skapa fyrir skattalækkanir í landinu sem eru löngu tímabærar og nauðsynlegar. Það sem stendur upp úr er að nú, við lok einnar lengstu efnahagsuppsveiflu íslenskrar hagsögu, stöndum við með ríkisútgjöld í botni og skattlagningu á almenning og fyrirtæki í botni. Ef þessi kólnun eða efnahagsniðursveifla sem við stöndum frammi fyrir núna verður eitthvað alvarlegri en núna er gert ráð fyrir í hagspám mun ríkisstjórnin þurfa að grípa til kunnuglegri aðgerða, þeirra að hækka skatta á fyrirtæki og almenning á sama tíma og efnahagslífið þarf á örvun að halda, ekki auknu aðhaldi eða enn þrengri spennitreyju í formi hærri skatta til að fjármagna óábyrga fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

Fjármálaráðherra hefur orðið tíðrætt um þann merka árangur sem náðst hafi, að heildarútgjöld ríkissjóðs séu núna 1.000 milljarðar kr. Þar á bak við virðist vera nokkurt stolt þrátt fyrir áralanga orðræðu Sjálfstæðisflokksins um nauðsyn aðhaldssemi í ríkisrekstri. Sjaldan ef nokkru sinni hafa ríkisútgjöld verið aukin jafn mikið á jafn skömmum tíma. Þegar horft er til þess hverju þetta hefur skilað sjáum við ekki betur en að biðlistar í heilbrigðiskerfinu séu ámóta langir og þeir voru áður en þessi ríkisstjórn tók við. Þar er enginn merkjanlegur árangur. Það hefur enginn merkjanlegur árangur orðið í að taka á fráflæðisvanda Landspítalans. Enginn merkjanlegur árangur hefur orðið í uppbyggingu hjúkrunarrýma sem svo lengi hefur verið talað fyrir. Þvert á móti hefur nauðsynlegum fjárfestingum í heilbrigðiskerfinu ítrekað verið slegið á frest, að því er virðist til að brúa bilið í aukinni samneyslu, stjórnlausri útgjaldaþenslu ríkisstjórnarinnar.

Það er auðvitað gagnrýnivert að engir raunverulegir árangursmælikvarðar séu á ríkisrekstri, engir mælikvarðar um skilvirkni í ríkisrekstri, engir mælikvarðar sem við getum séð í fjárlaganefnd um það hverju þessir 1.000 milljarðar skila landsmönnum á hverju ári í bættri þjónustu eða hvaða tækifæri eru til að gera enn betur fyrir sama fé eða jafnvel minna fé, en ekki bara að halda áfram að belgja báknið út. Þegar kemur að heilbrigðiskerfinu ber einna helst að nefna gegndarlausa andúð ríkisstjórnarinnar á einkaframtaki í heilbrigðiskerfinu. Ekki er hægt að sjá annað en að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi skorið upp herör gegn einkaframtakinu í heilbrigðisgeiranum þrátt fyrir óteljandi dæmi þess að þar sé skilvirkni í þjónustu mun meiri en hjá hinu opinbera. Maður hlýtur að spyrja með alla þessa áherslu á að færa fleiri og fleiri þjónustuliði inn á Landspítala, að því er sagt er í hagkvæmnisskyni, hvort það sé skýringin á stjórnlausum hallarekstri spítalans á sama tíma. Þrátt fyrir stóraukin fjárframlög til spítalans virðist það engan veginn duga til að mæta þeim verkefnum sem spítalanum hafa verið falin í tíð þessarar ríkisstjórnar. Á sama tíma hefur ítrekað verið bent á að með því að nýta sérhæfða einkaaðila í heilbrigðiskerfinu hér heima fyrir sé hægt að ná mun betri árangri, t.d. í liðskiptaaðgerðum og augnsteinaaðgerðum. Áfram mætti telja og áfram skal sú stefna rekin að ríkisvæða heilbrigðiskerfið, sama hvað tautar og raular og sama hvað það kostar. Þegar spurt hefur verið um kostnaðargreiningar liggja þær aldrei fyrir og engin skýr markmið um það hverju breytingin eigi að skila, hvaða ábata breytingin eigi að skila, ýmist í formi minni kostnaður eða betri þjónustu. Sú greining fer aldrei fram. Þetta er ekki boðlegur rekstur á hinu opinbera. Þetta er nokkuð sem fjárlaganefnd hlýtur að þurfa að taka til mun betri skoðunar. Hvaða árangursmælikvarða leggjum við til grundvallar ríkisrekstrinum? Hvernig getum við lagt mat á það hvort vel sé farið með fé skattborgaranna í rekstri ríkisins? Jafnframt er rétt að taka fram enn og aftur að á tímum niðursveiflu í efnahagslífinu er ekki sama hvernig ríkisfjármálunum er beitt. Það skilar mun meiri árangri að auka fjárfestingar en að auka samneyslu. Það hefur margfeldisáhrif út í hagkerfið, eflir einkaframtakið og eflir fyrirtækin í landinu sem glíma við kólnun hagkerfisins. Ríkisstjórnin hefur ítrekað valið hina leiðina, að belgja samneysluna út enn frekar.

Í umsögnum fjölmargra aðila eins og Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs er bent á þá nöpru staðreynd að eftir allan þennan tíma erum við enn undir langtímameðaltali í opinberri fjárfestingu. Við höfum aldrei náð langtímameðaltalinu á þeim tíma sem liðinn er frá hruni. Það er alvarlegt umhugsunarefni og hlýtur að vera það fyrir ríkisstjórnina núna þegar þrengir að svigrúminu í ríkisfjármálunum fram á veginn með kólnandi hagkerfi. Það hefur einfaldlega verið gengið allt of langt í útgjaldaaukningu og allt of skammt í nauðsynlegri innviðafjárfestingu sem hefði verið mun heppilegra ef eitthvert svigrúm hefði verið til slíkra aðgerða núna. Við hefðum þurft að sjá 30–50 milljarða aukningu í opinberum fjárfestingum á næstu þremur árum til að takast á við þá kólnun sem er í hagkerfinu en því miður er ekkert svigrúm til þess.

Við hefðum líka þurft verulegt svigrúm til skattalækkana á þessum tímapunkti í hagkerfinu. Það er ágætt að minna enn og aftur á þá staðreynd að á þessu ári greiðum við um 100–120 milljörðum meira í skatta til hins opinbera en ef skattstig hefði verið hið sama og það var fyrir hrun. Nú skal því ekki haldið fram að það sé hið eina rétta skattstig en þetta endurspeglar þær miklu skattahækkanir sem voru á árunum eftir hrun til að mæta tekjuþörf ríkissjóðs. Þegar staða ríkissjóðs batnaði síðan með fordæmalausum hagvexti var sá afkomubati nýttur meira og minna til útgjaldaaukningar en ekki til að slaka á þeim miklu skattahækkunum sem urðu.

Staðreyndin er, eins og ég kom að fyrr í máli mínu í dag, að við erum eitt skatthæsta ríki OECD. Við erum með ein mestu opinberu útgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þó erum við herlaust land, sem fæst OECD-ríkjanna eru, sem ætti að skila okkur einhverjum ávinningi í þeim samanburði. Þetta bendir eindregið til þess að hér hafi verið með eindæmum illa haldið á opinberum fjármálum um langt árabil. Enn og aftur má spyrja: Hvar eru markmiðin um skilvirkni í opinberum rekstri? Hvar eru markmiðin um hagræðingu? Hvernig sjáum við árangur af því fjármagni sem við veitum í ríkisreksturinn? Það fjármagn er ærið og eins og ítrekað hefur komið fram í þessari umræðu er það 1.000 milljarðar kr. á næsta ári.

Ég hef ítrekað gagnrýnt sérstaklega þann þátt að með útgjaldaþenslu sinni hefur ríkisstjórnin fest í sessi skattahækkanir vinstri stjórnarinnar á árunum 2009–2013. Þær eru til frambúðar og það verður mjög erfitt að vinda ofan af þeirri stöðu. Ég óttast líka að svigrúm ríkisstjórnarinnar til skattalækkana sem ýtt hefur verið til ársins 2021 verði mjög takmarkað. Þar er vert að hafa þrennt í huga. Þrátt fyrir áform um lækkun tekjuskatts er skattlagning á tekjur einstaklinga hér enn mjög há og mun hærri en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum. Þrátt fyrir mjög veikluleg, gæti ég sagt, áform um lækkun á bankaskatti sem á að hefjast árið 2021 erum við með margfalda skattlagningu á bankakerfið okkar á við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Þetta er ekki bara skattur á einhverja vonda banka. Hið augljósa í stöðunni er að við borgum þessa skatta, almenningur og fyrirtækin í landinu. Við sjáum afleiðingarnar af bankaskattinum nú þegar. Á sama tíma og Seðlabankinn lækkar vexti, ekki út af frábærri ríkisstjórn heldur út af kólnuninni sem er að verða í hagkerfinu, eru bankarnir að hækka álögur á fyrirtækin í landinu af því að þeir ráða ekki lengur við þær miklu opinberu álögur sem eru á bankakerfinu. 15 milljarðar eru lagðir sérstaklega á bankakerfið af ríkinu, skattar sem ekki tíðkast almennt í löndunum í kringum okkur. Það verður að segjast eins og er að áform ríkisstjórnarinnar um lækkun bankaskatts eru afskapleg léttvæg í því samhengi. Ég óttast að lækkuninni verði enn skotið á frest þegar svigrúmið í ríkisfjármálum þrengist enn frekar.

Síðast en ekki síst kemur tryggingagjaldið upp aftur og aftur í umræðu um nauðsynlegar skattalækkanir. Tryggingagjald er í lok þessarar uppsveiflu enn heilu prósentustigi hærra en það var á árinu 2008. Þrátt fyrir þetta gríðarlega langa hagvaxtarskeið sem við erum búin að fara í gegnum hefur ekki tekist að ná tryggingagjaldinu niður sem skyldi. Í samfélagi þar sem tækniþróun veldur því að störf eru í sívaxandi hættu vegna tækniframfara er mjög sérkennileg stefna að ætla að skattleggja störf í drep. Horfum bara aftur á þessar tvær staðreyndir: Við erum enn með mjög hátt tryggingagjald í sögulegu samhengi og við erum með mjög mikla skattlagningu á tekjur einstaklinga. Allt veldur þetta á endanum mjög miklum launakostnaði sem ýtir enn frekar undir fækkun starfa í hagkerfinu, meiri fækkun en nauðsynleg væri vegna þeirra tæknibreytinga sem við stöndum frammi fyrir. Það er raunar það sem við sjáum gerast núna, í hagkerfinu á sér stað stöðug hagræðing þessi misserin og fréttir af uppsögnum fyrirtækja á undanförnum vikum og mánuðum hafa verið stanslausar. Í þessu felst engin pólitísk stefna. Þetta er enn og aftur einfaldlega sú hættulega málamiðlun sem felst í samstarfi þessara þriggja flokka, að límið í því samstarfi er útgjaldaaukning sem knúið er á um í fjármálaáætlun og núna fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar má ekkert gefa eftir, hvað þá að gæta aukins hagræðis eða lækka skatta.

Það eru nokkrir þættir sem mér þætti áhugavert að velta upp í lok þessarar umræðu. Alþingi hlýtur að þurfa að taka til endurskoðunar hvernig við ræðum fjármál ríkissjóðs með þeim breytingum sem orðið hafa með lögum um opinber fjármál. Við erum í endurtekinni umræðu að vori og hausti meira og minna um sömu hluti, annars vegar undir formerkjum fjármálaáætlunar og hins vegar formerkjum fjárlaga. Ég myndi vilja sjá miklu sterkari aðkomu þingsins að umræðunni um fjármálaáætlun ríkisstjórnar en mögulega þá með þeim formerkjum að veita einfaldlega ríkisstjórn, framkvæmdarvaldinu, aukið frelsi við útfærsluna á fjárlögum hvers árs. Stefnan er vissulega mörkuð í fjármálaáætlun. Rammi hvers málaflokks er markaður í fjármálaáætlun hverju sinni. Það er rétt að þingið setji töluverðan þunga í þá umræðu en hafi líka svigrúm og það sé kannski opið samtal í þessum sal um þá forgangsröðun sem þar á sér stað en ekki bara eins og við sjáum bæði í dag í fjármálaáætlun og fjárlögum að fyrirmæli frá framkvæmdarvaldinu rúlli einfaldlega í gegnum fjárlaganefnd til að uppfylla formið. Það er engin raunveruleg umræða um hina pólitísku forgangsröðun, ekkert svigrúm fyrir þingið til að bregðast við. Þetta eru einfaldlega breytingartillögur sem koma frá fjármálaráðuneytinu undir lok umræðunnar, bæði þegar kemur að fjármálaáætlun og fjárlögum. Kannski væri rétt að reyna að finna betra jafnvægi þannig að þingið hefði meiri aðkomu, vonandi aðeins þverpólitískari aðkomu, að mótun stefnunnar í fjármálaáætlun, enda er rétt að hafa í huga að þegar við tökum t.d. til umræðu fjármálaáætlun eftir áramót er það áætlun sem nær langt inn á næsta kjörtímabil og algjörlega óljóst hvaða pólitíski meiri hluti verður þá við völd. Það er kannski eðlileg krafa af hálfu minni hlutans að hafa einhverja aðkomu að forgangsröðuninni sem þar er mörkuð. Á móti mætti kannski stytta umræðuna um fjárlög að hausti enda séu þau innan ramma fjármálaáætlunar á hverjum tíma.

Það er annað líka sem ég er mjög hugsi yfir eftir alla þessa umræðu, eftir breytingu á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar í vor, eftir umræðuna sem var í þingsal bæði í gær og í dag um — þótt það sé smámál í heildarsamhenginu — fjármögnun skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara, og það er skorturinn á grundvallarfestu í opinberum fjármálum, að við virðum þau prinsipp sem eru sett í lögum um opinber fjármál og högum okkur eftir þeim. Þar horfi ég í fyrsta lagi til þess að við endurnýjuðum fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar í vor vegna þess að blikur voru á lofti í efnahagslífinu á þeim tímapunkti. Það var gefið óvissusvigrúm upp á 0,8% af vergri landsframleiðslu. Hvað sjáum við gerast? Við sjáum að þetta óvissusvigrúm virðist ekki duga til varðandi afkomu ríkissjóðs á árinu 2019 og ég ætla að fullyrða hér og nú að það eru yfirgnæfandi líkur á að halli hins opinbera á árinu 2019 rjúfi óvissusvigrúmið upp á 0,8%. Staðreyndin er sú að fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra hafa ekki hugmynd um mögulega afkomu sveitarfélaganna á árinu 2019 sem á að rúmast innan þessa sama óvissusvigrúms. Engu að síður er með fjáraukalögum búið að keyra afkomu ríkissjóðs niður í 0,5% halla. Ekki eru öll kurl komin til grafar enn varðandi ríkið sjálft en við vitum að sveitarfélögin voru rekin með 0,3% halla á síðasta ári og að afkomuhorfur þeirra hljóta að hafa versnað líkt og ríkisins á þessu ári.

Þetta finnst mér mjög ámælisvert og það gengur þvert gegn einu af grunngildum laga um opinber fjármál sem er varfærni. Við eigum að sýna varfærni. Við eigum að skilja eftir svigrúm til að tryggja að afkoma ríkissjóðs sé örugglega innan þeirra marka sem henni eru sett í fjármálastefnu. Þetta á ekki bara að vera eitthvert viðmið sem við getum síðan rofið eins og ekkert sé. Þá er einfaldlega aðhaldið í lögunum um opinber fjármál ekki það sem stefnt var að þegar lögin voru sett á sínum tíma. Hið sama á við um hvernig við beitum t.d. varasjóðum sem hafa verið mjög til umræðu út af framlögum til héraðssaksóknara. Ítrekað hefur verið bent á þetta, m.a. af hálfu Ríkisendurskoðunar í umsögn um fjáraukalög, reyndar það sama varðandi t.d. framlög til þjóðkirkjunnar meðan kirkjujarðasamkomulagið var óklárað. Það voru algjörlega fyrirsjáanleg útgjöld sem ítrekað hafa verið sett fram í fjáraukalögum. Það var fyllilega hægt að bregðast við þeim með öðrum hætti, þ.e. gera ráð fyrir þeim í fjárlögum, en það var val framkvæmdarvaldsins að gera það ekki og það gengur þvert gegn lögum um opinber fjármál. Hæstv. fjármálaráðherra, sem er ekki hér við 3. umr. um fjárlög, verður bara að fá að vera hörundsár vegna þeirra ásakana. Það er bara staðreynd málsins. Þetta er ekki í takt við lög um opinber mál. Það vantar enn í fjármálastjórn hins opinbera að það sé einhver prinsippfesta, að við virðum þau mörk sem við höfum ákveðið að setja okkur í títtnefndum lögum. Það er ekki eitthvert pólitískt hark, þetta snýst um að það sé hald í lögunum þegar á reynir og að þau séu ekki brotin þegar það hentar hverju sinni. Það er mjög umhugsunarvert, samanber umræðuna fyrr í dag, hvernig eigi að fjármagna nauðsynleg útgjöld til héraðssaksóknara á næsta ári. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur hann óskað eftir umtalsverðri aukningu á fjárframlögum og ég spyr: Af hverju í ósköpunum var ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum? Þetta hefur legið fyrir. Ríkisstjórnin var búin að gefa út sérstaka yfirlýsingu um að hún ætlaði að bregðast við þessu, en hún kaus að gera það ekki nema með einhverjum svona fúskvinnubrögðum og ætlar að sópa einhverjum fjármunum til. Þá verður að hafa í huga, eins og kom fram í máli hv. þingmanns og formanns fjárlaganefndar, Willums Þórs Þórssonar, að þarna er ekki hægt að blanda saman málaflokkum. Það er ekki hægt að færa fjármagn frá ríkisskattstjóra yfir til héraðssaksóknara, þetta er hvort sitt málefnasviðið. Við eigum ekki við þau frá þeirri hlið. Það kom líka fram að það er enginn varasjóður í málaflokknum sem snýr að rekstri héraðssaksóknara. Mér er því spurn: Hvernig á að tryggja embættinu nauðsynlega fjárveitingu án þess að það brjóti gegn lögum um opinber fjármál? Mér finnst mjög eðlilegt viðfangsefni fjárlaganefndar að hún kalli eftir upplýsingum frá ríkisstjórninni. Öll hljótum við að vera sammála um að við ætlum að tryggja að embættið hafi það fjármagn sem til þarf til að sinna mikilvægum rannsóknum, ekki bara Samherjamálinu sem hér hefur verið nefnt heldur fjölda annarra mála sem eru gríðarlega mikilvæg, m.a. margháttuð efnahagsbrot sem gætu skilað ríkissjóði auknum tekjum þegar fram í sækir. Það verður að tryggja að þetta sé gert og það með réttum hætti.

Í stuttu máli: Efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar er ekki til neinnar sérstakrar fyrirmyndar. Útgjaldaaukningin er algjörlega fordæmalaus og við erum skilin eftir í upphafi efnahagslegar niðursveiflu með útgjöld í sögulegu hámarki, skattstofna og skattprósentur í sögulegu hámarki. Spurningin hlýtur að vera: Hvernig ætlum við að bregðast við þeirri kólnun sem er að verða ef hún verður eitthvað meiri en ráð er fyrir gert? Það er rétt að hafa í huga að í opinberum hagspám er enn gert ráð fyrir alveg silkimjúkri lendingu, lendingu sem við höfum sjaldnast séð í íslensku efnahagslífi, og enn eru alvarlegar blikur á lofti. Þó að það sé ekki ástæða til neinnar örvæntingar er full ástæða til að ætla að næsta ár gæti orðið erfitt fyrir margra hluta sakir, að það muni einkennast af áframhaldandi hagræðingu í atvinnulífinu almennt, af tiltölulega slakri afkomu fyrirtækja almennt og því að heimilin haldi frekar að sér höndum þegar kemur að einkaneyslu. Allt eru þetta þættir sem hafa gríðarleg áhrif á tekjur ríkissjóðs og þar af leiðandi er full ástæða til að óttast að við ofmetum enn afkomuhorfur ríkissjóðs inn á næsta ár og að það óvissusvigrúm sem nú þegar er gengið töluvert inn á með þessum fjárlögum muni einfaldlega ekki duga til. Ég veit ekki hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar þá að gera, hvort hún ætlar að endurskoða fjármálastefnu sína öðru sinni af því að hún hafi ekki náð að halda sér innan nýsamþykktrar, nýbreyttrar fjármálastefnu sem er vart orðin sex mánaða gömul.