150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Nú líður senn að lokum 3. umr. um fjárlög ársins 2021 og margir hv. þingmenn hafa komið inn á það að hér liggur að baki töluvert mikil vinna og búið að leggja heilmikið í þetta. Það hefur margt verið rætt í dag og greinilegt að ekki eru allir á sama máli eða sömu skoðun um hvert við erum að stefna í ríkisfjármálunum. Ég nefndi við 2. umr. ýmis mál sem mér fannst sérstaklega ástæða til að hafa í huga, mál sem ég hefði a.m.k. gjarnan viljað velta fyrir mér hvort hefðu átt að vera með öðrum hætti en þeim sem við enduðum með. Ég nefndi líka þætti sem ég tel vera til verulegra bóta.

Í þessu fjárlagafrumvarpi höldum við í rauninni áfram á þeirri braut sem ríkisstjórnin hefur verið á undanfarin tvö ár og þetta eru þriðju fjárlögin. Það er haldið áfram að bæta í innviðauppbyggingu. Það er haldið áfram að bæta í ýmsa þætti félagsmála sem skipta verulega miklu máli fyrir samfélagið. Öfugt við það sem kannski hefur heyrst mikið í umræðunni þá hefur þrátt fyrir allt í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar verið aukið verulega í ýmsa þætti, svo sem eins og heilbrigðismál og félagsmál. Við gerum ráð fyrir á næsta ári að hefja lengingu fæðingarorlofsins sem er kannski ein stærsta félagslega bótin sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Við veltum fyrir okkur hvort sú leið sem við förum í lengingu fæðingarorlofsins, eins og þingmenn kannast við, með því að skipta því upp með þessum hætti sé sú rétta, þ.e. að byrja á að bæta við það með aðferð sem hefur verið kölluð fjórir, fjórir, tveir. Menn hafa velt ýmsum öðrum útfærslum fyrir sér en þetta er sennilega sú sem við getum helst sammælst um.

Það hefur farið nokkuð fyrir því í umræðunni að við séum að draga úr framlögum til Landspítala – háskólasjúkrahúss. Menn hafa m.a. velt því upp að verið sé að hægja á framkvæmdum þar og 3,5 milljarðar sem færðir eru á milli ára verði til þess að draga úr framkvæmdum og þær verði ekki kláraðar á sama tíma og áætlað var. Þær upplýsingar sem við höfum hins vegar frá nýjum Landspítala eru að þessar breytingar séu fyrst og fremst vegna þess að framkvæmdir hafi tafist af því sem kalla megi eðlilegar ástæður og ekki standi til að draga úr því að klára verkið á réttum tíma. Þetta skiptir verulega miklu máli fyrir allt heilbrigðiskerfið. Þegar búið verður að byggja Landspítalann í þeirri mynd sem við stefnum að má gera ráð fyrir að það verði verulegur sparnaður af því að vera með alla bráðamóttöku og alla bráðaþjónustu á einum stað og þannig náist verulegt hagræði. Það má til gamans geta þess að þegar verið var að velta fyrir sér upprunalegu byggingunni á Hringbraut þá komust menn að þeirri niðurstöðu að bara með því að vera með Landspítalann að stærstum hluta til á einum stað myndi framkvæmdakostnaðurinn sparast á u.þ.b. 15–20 árum, sem er verulega góð fjárfesting fyrir alla landsmenn og svo maður tali nú ekki um fyrir þá sem nota þjónustuna eða þá sem vinna á Landspítalanum.

Heilbrigðisþjónusta er auðvitað meira en bara sjúkrahúsþjónusta. Við höfum talað um það alveg frá því að þessi ríkisstjórn tók við því að verulegu máli skipti að við reynum að beina þjónustunni á það þjónustustig sem eðlilegast er að fólk leiti til. Í því augnamiði hefur framlögum verið beint til heilsugæslunnar og við höfum verið að efla hana á kjörtímabilinu, m.a. með því byggja upp Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar sem sinnir ýmiss konar þróunarverkefnum fyrir þá ágætu þjónustu. Það hefur verið bætt verulega í sálfræðiþjónustu og þannig mætti lengi telja. Þetta skiptir allt máli þegar horft er til þess að við erum líka búin að setja okkur heilbrigðisstefnu sem mun þá, saman með þeim áherslum sem við erum með í fjárlögum, tryggja að smátt og smátt beinist heilbrigðisþjónustan í þann farveg og þær áttir þar sem hagkvæmnin er mest. Það er engum vafa undirorpið að heilbrigðiskerfi með öfluga og sterka heilsugæslu er miklu skynsamlegri og betri nýting á fjármunum en að beina fólki inn á dýrari þjónustuúrræði á fyrri stigum.

Við erum sem sé í þessum fjárlögum að stíga mikilvæg skref áfram á þeirri vegferð sem þessi ríkisstjórn hefur verið. Auðvitað eru ekki allir endar hnýttir og það er ekki búið að snúa öllum þáttum til þess vegar sem heppilegast væri. En það er verið að stíga skref í þá veru og ég held að það sé skynsamlegt fyrir okkur að halda áfram að bæta í þessa málaflokka sem við höfum verið að gera, sérstaklega heilbrigðisþjónustuna, félagslega kerfið og svo núna í uppbyggingu innviða eins og stendur til. Ég hlakka til atkvæðagreiðslunnar hér á morgun og mun með mikilli gleði þegar þar að kemur greiða atkvæði með þessu fjárlagafrumvarpi.