150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í dag minnti Stjórnarskrárfélagið Alþingi enn og aftur á að innleiða nýja stjórnarskrá grundvallaða á frumvarpi stjórnlagaráðs. Þessi sjálfsagða krafa hefur nú verið hunsuð í rúm sjö ár frá þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Í samtölum mínum við andstæðinga nýrrar stjórnarskrár verð ég aftur og aftur var við að þeir sem eru hvað mest andsnúnir henni byggja skoðun sína á miklum ranghugmyndum um hana og hvað standi í henni. Algengastar eru tilhæfulausar fullyrðingar um að með nýrri stjórnarskrá sé sú gamla rifin í tætlur og henni hent í ruslið. Eins og hefur margsinnis verið bent á er þetta rangt. Ný stjórnarskrá byggir í öllum meginatriðum á þeirri gömlu enda enginn ágreiningur um grundvallaratriðin. Óttinn við nýja stjórnarskrá virðist helst vera við að dreifa valdi til kjósenda sjálfra eða a.m.k. draga úr ægivaldi þeirra sem fara með meirihlutavaldið hverju sinni.

Það er reyndar sérstaklega áhugavert hvernig valdamestu andstæðingar nýrrar stjórnarskrár virðast setja samasemmerki milli þess að dreifa valdi og að rífa allt kerfið í tætlur, eins og það sé sjálfsagt að kerfið standi og falli með því að kjósendur hafi sem minnst um hlutina að segja eða sumsé einn bókstaf á fjögurra ára fresti, eins og ef með því einu að ráðherrar bæru aðeins meiri ábyrgð eða kjósendur tækju fleiri ákvarðanir beint þá færi allt í steik. Það er vitleysa, virðulegi forseti, hræðsluáróður sem virkar best vegna þess að þau öfl sem eru orðin heimakær valdinu eru logandi hrædd við að missa geðþóttavaldið sem þau eru orðin vön. Að einhverju leyti er sá ótti skiljanlegur en einungis frá sjónarhorni andstæðinga lýðræðislegra grundvallargilda. Að öðru leyti er óttinn þó ástæðulaus vegna þess að það eina sem stjórnmálamenn þurfa raunverulega að gera til að standast það hófsama mótvægi og aðhald sem boðað er með nýrri stjórnarskrá er að temja sér betri vinnubrögð, meiri ábyrgð, minna fúsk. Með því er engu snúið á hvolf, ekkert rifið í tætlur og engu hent í ruslið. Ný stjórnarskrá er eðlilegt næsta skref í þróunarsögu lýðveldisins Íslands.