150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga og ráðherra, ekki síst utanríkisráðherra hverju sinni, að reyna að opna fyrir viðskipti með vörur okkar Íslendinga í útlöndum. Þess vegna skiptir til að mynda máli að í ferð utanríkisráðherra til Rússlands, í opinberri heimsókn, hvorki meira né minna, séu skilaboðin skýr því að verið er að tala fyrir því að reyna að opna á ný markaði fyrir íslenskar vörur, ekki síst matvæli. Á sama tíma verða skilaboðin líka að vera skýr, að við séum ekki að slíta okkur úr samfloti frá vinaþjóðum okkar á Norðurlöndum, ESB-þjóðunum eða NATO.

Skilaboðin eru nefnilega skýr. Við skulum hafa hugfast að viðskiptaþvinganir á Rússa duttu ekki bara af himnum ofan. Rússar réðust inn í frjálst og fullvalda ríki og þeir tóku Krímskaga. Viðskiptabannið snertir herflutninga sem og það að koma í veg fyrir peningaþvætti ólígarkanna og vina forseta Rússlands. Á móti settu Rússar viðskiptabann á vörur frá Íslandi, ekki síst matvæli. Það er auðvitað miður en það verður líka að vera alveg skýrt í svona ferð, sem ég vona að opni dyr fyrir okkar frábæru íslensku útflutningsvörur, að við gerum það ekki á grunni þess að brjóta prinsipp í vestrænu samstarfi sem byggja undir lýðræði, lýðréttindi og mannréttindi. Það verður að vera alveg skýrt af hálfu okkar Íslendinga.

Það er síðan kaldhæðnislegt, virðulegi forseti, að í föruneyti ráðherra, vel að merkja í ferð til að opna á viðskiptafrelsi, er íslenskt einokunarfyrirtæki á mjólkurmarkaði. Það fyrirtæki þyrstir eðlilega í útrás, viðskiptafrelsi o.s.frv., en á sama tíma berst það fyrirtæki (Forseti hringir.) hatrammlega gegn innflutningi og samkeppni hér heima fyrir — með dyggum stuðningi ríkisstjórnarflokkanna og reyndar Miðflokksins líka.