150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í grein Fréttablaðsins í dag kemur fram að í fyrra hafi einungis 49% barna fædd á landinu verið skráð í þjóðkirkjuna. Á sama tíma og þetta gerist er hætt við að láta samningsákvæði um fækkun í þjóðkirkjunni hafa áhrif á greiðslur til kirkjunnar. Það er útskýrt með því að þetta hafi haft svo lítil áhrif hingað til en það hefur þó haft þau áhrif að fækkað hefur um rúmlega 10.000 manns í þjóðkirkjunni frá því að kirkjujarðasamkomulagið var samþykkt, sem eru laun tveggja presta. En nú þegar stefnir í mun meiri fækkun miðað við þetta má allt í einu ekki láta þessa fækkun gilda. Er einhver til í að útskýra fyrir mér hvernig þetta nýja samkomulag er aðskilnaður? Það er svo sannarlega ekki fjárhagslegur aðskilnaður, langt í frá. Nýja samkomulagið styrkir einmitt fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju og minnkar eftirlit með opinberri fjármögnun til kirkjunnar — minni ábyrgð en meiri skuldbinding. Ef aðskilnaður virkar þannig er ég í einhverjum hliðarraunveruleika og tala ekki sama tungumál og hæstv. dómsmálaráðherra, enda stunda ég ekki sömu stjórnmál og flokkur hennar. Viðbótarsamkomulag við kirkjujarðasamkomulagið er að mínu mati ólöglegt með tilliti til laga um opinber fjármál út af því að þar er 15 ára endurskoðunarákvæði en í lögum um opinber fjármál er miðað við fimm ár. Ekkert er skilgreint um eftirlit með notkun á opinberu fé eins og kveðið er á um í lögum um opinber fjármál. Það er mjög skýrt það samkomulag sem liggur fyrir Alþingi í fjárlögum að við eigum að hafna þessu. Það gengur ekki að þetta sé gert svona. Við erum með einföld grunnlög um opinber fjármál. Grundvallarreglur um það hvernig framkvæmdarvaldið getur komið fram við Alþingi og við þjóðina eru brotnar. Við eigum einfaldlega ekki að láta þetta ganga yfir okkur.