150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi fjárlög ríkisstjórnarinnar einkennast sem fyrr af stjórnlausri þenslu á ríkisbákninu. Hagkerfið er í niðursveiflu og það skapar ekki nauðsynlega örvun til þess að stækka ríkisbáknið. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi verið föst í of bjartsýnum efnahagsforsendum og hún hefur treyst um of á tímabundna aukningu tekna í uppsveiflu sem var. Við erum í niðursveiflu og þá á að örva atvinnulífið og það gerum við í Miðflokknum með því að leggja til enn frekari lækkun tryggingagjaldsins. Við viljum skera niður ríkisbáknið og hagræða í öllum ráðuneytum upp á samtals 1 milljarð kr. og draga úr umsvifum hins opinbera. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um skattalækkanir eru margvísleg gjöld hækkuð á móti. Skattkerfið er sífellt gert flóknara. Ríkissjóður er nú rekinn með halla í fyrsta skipti í sjö ár. Komið er að þolmörkum í óvissusvigrúmi.

Herra forseti. Þetta eru fjárlög án fyrirhyggju og ráðdeildarsemi.