150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar allt kemur til alls er innihald fjárlaga á ábyrgð stjórnarflokkanna. Það segir því miður ekki alla söguna því að í fjárlögum eru þessar heildarupphæðir mjög lítið útskýrðar. Þegar allt kemur til alls höfum við ekki hugmynd um í hvað allir þessir milljarðar hingað og þangað eiga að fara. Við eigum heimtingu á því, þingið og þjóðin, að þetta sé betur sundurliðað til þess að við vitum hvert fjárheimildir ráðherra fara, til þess að koma í veg fyrir að ráðherrar fari með geðþóttavald í því hvernig fjárheimildunum er beitt. Að öðru leyti er ágætlega farið, miðað við hagsveifluna, með fjármálaliðina. Skattalækkanir eru sniðugar í þessu umhverfi. Það er sniðugt að fara í auknar framkvæmdir en þær eru byggðar á ágiskunum. (Forseti hringir.) Við fáum ekkert að vita hver ábati þeirra framkvæmda er og þeirra ríkisútgjalda sem verið er að fara í. Það er einfaldlega verið að giska.